139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel að þessi árás á forseta þingsins og fundarstjórn hans sé algjörlega ósanngjörn og sprottin af einhverjum hvötum sem ekki eiga rök að rekja til heiðurs þingmanns og virðingar þingsins.

Það sem hér gerðist áðan var það að fjórir stjórnarandstæðingar komu upp. Einn þeirra spurði um Magma-málið og fékk þau svör sem hann gat ætlast til þess að fá við því. Annar spurði um ummæli forsetans. Ég veit ekki hvað menn vilja meira í því efni. Það kom fram að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki rætt við forseta enn eins og hún ætlar að gera. Eigum við ekki bara að bíða eftir því að þær samræður fari fram?

Síðan komu fram tvær spurningar um frumvarp sem hér er til umræðu, stjórnarráðsfrumvarpið. Stjórnarandstæðingar eru sem sé að eyða tímanum í óundirbúnum fyrirspurnum með því að koma yfir í þær umræður sem eiga að taka við hér á eftir og ég var viðstaddur hér á fimmtudaginn mér til ánægju og yndisauka.