139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú ósmekklegur dómur sem ræða mín fékk frá hv. þingmanni. Það er alveg rétt að ég ræddi þetta mál í hinu pólitíska samhengi sem við öllum blasir, þ.e. að það nýtur ekki stuðnings allra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni. En í seinni hluta ræðu minnar fjallaði ég efnislega um málið og gerði grein fyrir athugasemdum okkar við meginefni þess án þess að nefna hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra á nafn þó svo málið snúist auðvitað að miklu leyti um hann. Þetta var efnisleg umræða um frumvarpið.

Ég mótmæli því að sjálfstæðisflokkurinn sé pólitískt gjaldþrota í tengslum við málið og neiti því að taka til og gera breytingar á Stjórnarráðinu. (Gripið fram í.) Ég lýsti því yfir í lok ræðu minnar að ég væri reiðubúinn til að gera alls kyns breytingar á Stjórnarráðinu. Ég hef verið talsmaður þess að menn taki t.d. til umfjöllunar hugmyndir sem komu til nefndarinnar frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um róttækar breytingar á skipulagi ráðuneyta. (RM: Flokkur í upplausn.)

Ég hlakka til að heyra sjónarmið fulltrúa stjórnmálaflokkanna í þingmannanefndinni um málið. Ég óskaði eftir því að formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, yrði fenginn á fund allsherjarnefndar til að lýsa viðhorfum sínum til málsins og lýsa því hvort hann teldi að þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu samræmdust þeim tillögum sem fram koma í skýrslu þingmannanefndarinnar. Það var auðvitað ekki gert. (MÁ: Bíddu nú við.) Ástæðurnar voru m.a. þær að formaður nefndarinnar komst ekki á fundi nefndarinnar.

Ég fullyrði að þeir sem voru í þingmannanefndinni munu gera jafnalvarlegar athugasemdir og ég hef gert um samspil þessara tillagna og frumvarpsins og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur gert. Hann hefur sagt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og hann situr í hæstv. (Forseti hringir.) ríkisstjórn, að frumvarpið hafi lítið sem ekkert með þær tillögur að gera.