139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og ítarlega ræðu sem var að vísu í styttra lagi miðað við getu og ræðustíl þingmannsins. Hún náði ákveðnum hápunkti þegar hv. þingmaður kom með þá fjörugu kenningu að einræðisstjórnin í Brussel hefði skipað ríkisstjórninni hér á landi fyrir, en hana hafa tveir af félögum hans í þingflokknum kallað kommúnistastjórn, og látið hana setja fram þetta frumvarp sem hefur þá verið skrifað í Brussel og kommúnistastjórnin hér hefur flutt. Þetta eru ákveðnar hæðir í pólitískum skáldskap. Ég lýsi aðdáun minni á því að menn skuli, þó að ungir séu að árum, hafa náð þessum árangri í hugarflugi og sannfæringarkrafti gagnvart sjálfum sér að geta haldið þessu fram í ræðustól Alþingis. Mér finnst það aðdáunarvert.

Erindi mitt, auk þess að lýsa yfir aðdáun minni á hinum vaska og djúpvitra hv. þingmanni Sigurði Kára Kristjánssyni, er að spyrja hann hvernig á því standi að þetta sama skipulag skuli vera uppi í konungsríkjum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og hvort þeim sé stjórnað af kommúnistum og hvort þessi skipan hafi verið upp tekin að kröfu einræðisherranna í Brussel.