139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[13:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að staldra við eitt atriði sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, ég treysti því að hún geri grein fyrir öðrum sjónarmiðum síðar í umræðunum, m.a. varðandi aðstoðarmennina og hlutverk hinnar pólitísku skrifstofu sem hv. þingmaður hefur nokkuð fjallað um, m.a. í nefndinni. En það atriði sem ég ætlaði að staldra við í þessu andsvari snýr að þeirri meginbreytingu sem má finna í 2. gr. frumvarpsins og við höfum nokkuð rætt um. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki fallist á það með mér að breytingin í frumvarpinu feli það í sér að vald til að ákveða hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu færist frá Alþingi til ríkisstjórnar, hvort það sé ekki alveg á hreinu að það sé tilgangur þeirrar breytingar sem felst í 2. gr. frumvarpsins.