139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. forsætisráðherra er væntanleg í salinn. Fram hefur komið gríðarleg gagnrýni á þetta frumvarp. Ég vil þá beina því til hæstv. forseta að það verði tryggt þegar hæstv. forsætisráðherra kemur í salinn að hún muni sitja hér og taka þátt í umræðunni.

Það eru fjölmargar athugasemdir og spurningar sem þingmenn vilja beina til hæstv. forsætisráðherra hvað þetta mál sérstaklega snertir og gríðarleg gagnrýni hefur komið fram á málið. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þeirrar forgangsröðunar sem sett er fram hér þar sem málið er sett sem eina málið sem þarf að ræða í þessum stubbi. Hæstv. forsætisráðherra hefur verið dugleg að tjá sig um málið í fjölmiðlum. Á meðan ekkert er gert hér til að ræða skuldavanda heimilanna, atvinnumál og annað er ekki óeðlilegt að þessi krafa komi fram.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að þeirri ósk verði komið á framfæri að hæstv. forsætisráðherra sitji hér (Forseti hringir.) og taki þátt í umræðunni líkt og þingmenn eru að gera.