139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er skemmtilegt að sjá að hv. þm. Róbert Marshall er genginn í áhugamannaklúbb um Framsóknarflokkinn með hæstv. utanríkisráðherra. Eflaust megum við eiga von á fjölmörgum athugasemdum úr þeim klúbbi á næstu missirum. En það er ekki til umræðu nú heldur hvernig við getum greitt fyrir þingstörfum í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Hún er sú að hæstv. forsætisráðherra getur ekki verið í þinginu og sinnt þingstörfum vegna þess að hæstv. ráðherra er að taka á móti erlendum gestum. Er þá ekki tilvalið, virðulegur forseti, að nota tækifærið og fresta umræðu um þetta mál hæstv. forsætisráðherra og fjalla í staðinn um einhver af þeim fjölmörgu málum sem bíða á dagskránni í dag, í mörgum tilvikum mikilvæg og aðkallandi mál, t.d. greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og stór mál eins og sveitarstjórnarlög. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mundi eflaust vilja mæta og ræða aðeins um gjaldeyrishöftin sín. Það er fjölmargt sem við gætum (Forseti hringir.) tekið okkur fyrir hendur á meðan hæstv. forsætisráðherra er að sinna erlendum gestum.