139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær upplýsingar að hæstv. forsætisráðherra komi hingað á eftir því að það staðfestir um leið skilning okkar í stjórnarandstöðunni að mikilvægt er að 1. flutningsmaður málsins sé viðstaddur, einmitt hæstv. forsætisráðherra. Ég vil því þakka fyrir það um leið og ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það væri þá ráð að taka nokkur mál í millitíðinni sem er sameining um á þingi (Gripið fram í.) þar til hæstv. forsætisráðherra kemur í salinn og hlýðir á ræður (Gripið fram í.) og tekur þátt í umræðum.

Mér fannst ómaklega vegið að hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni áðan en hann hefur verið bæði sem þingmaður og ráðherra einn allra liprasti maðurinn í störfum þingsins og sat hér margar stundir yfir sínum málum, sem og ég sem átti oft á tíðum næturlangt samtöl við hv. þingmenn þá í stjórnarandstöðunni. En viti menn — þeir eru komnir í stjórnarmeirihluta, þá eru viðhorfin allt önnur.