139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta. Það vakti athygli mína líka í ræðu hv. þingmanns að talað var um að tíu nýir þingmenn tækju sæti á Alþingi og þá vænti ég þess að hún hafi átt við að þeir kæmu í stað ráðherra. Kæmi sú tillaga til móts við þau sjónarmið sem birtust í skýrslu þingmannanefndarinnar og í umræðunum hér í þinginu um að auka sjálfstæði þingsins og skerpa skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds? Með hvaða hætti yrðu ráðherrarnir valdir? Kæmu þeir úr hópi kjörinna alþingismanna sem mundu þá afsala sér þingmennsku, væru þeir kosnir sérstaklega eða með hvaða hætti sér þingmaðurinn þetta fyrir sér?

Þá þætti mér líka áhugavert að heyra aðeins frá þingmanninum um hugmyndina um að skipa ráðherra án ráðuneytis sem hún saknaði að væri ekki í frumvarpinu og ég næ einfaldlega ekki alveg.