139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held reyndar að ég hafi lesið það einhvers staðar að það væri eitt ár í upplýsingalögunum. Ég mun ræða um ágallann á því á eftir í ræðu minni.

Hitt atriðið sem mig langaði að heyra viðbrögð hv. þingmanns við er um formfestuna. Gríðarleg áhersla er lögð á að við reynum að formgera það sem við sáum að fór úrskeiðis hérna fyrir þremur árum og kom skýrast fram í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Núna erum við með þessum viðbrögðum meiri hlutans í allsherjarnefnd að leggja það til að forsætisráðherra fari með mun meira vald, m.a. til þess að færa verkefni frá einu ráðuneyti til annars og leggja niður ráðherraheiti. Óttast þingmaðurinn ekkert að þetta muni þýða að með formfestunni verði erfiðara fyrir bæði þingið og aðra sem þurfa að hafa eftirlit með störfum einstakra ráðherra að fylgjast með svo vel sé þegar ekki er alveg ljóst hvar verkefnin liggja — þau geta breyst frá einum tíma til annars — og að það standi bara að þau séu á hendi ráðherra en ekki iðnaðarráðherra eða umhverfisráðherra eða hvernig sem það er?