139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég hef svo sem ekki áhyggjur af því og held að það eigi að vera hægt að rekja mál þegar þau færast til. Mikil áhersla er lögð á að allt sé skráð og það verður þá skráð ef mál flyst frá einum til annars. Nei, ég sé ekki hættuna á því þó að einn málaflokkur færist frá einum starfsmanni til annars eða í annað ráðuneyti og ekki standi nákvæmlega iðnaðarráðuneyti eða eitthvert annað ráðuneyti. Hefur þingmaðurinn áhyggjur af því að það muni ekki verða merkt þó að það standi ekki í lögunum nákvæmlega hvaða ráðherra eigi að fara með hvað? Ég held að í hinu daglega lífi verði það þannig. Það er þá hægt að setja upp verklagsreglur í Stjórnarráðinu um að merkja eigi öll vinnuplögg og alla ferla nákvæmlega viðkomandi ráðherra. Þó að það standi ekki í lögunum (Forseti hringir.) hvað öll ráðuneyti eigi að heita munu þau væntanlega heita eitthvað (Forseti hringir.) eftir sem áður sem verður ákveðið hverju sinni þegar ríkisstjórn er mynduð.