139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna og vil um leið benda á að oft er gott í málum af þessu tagi að lesa nefndarálit meiri hlutans eða hlýða á framsögumann þess nefndarálits áður en maður semur eigin ræðu.

Mig langaði til að spyrja í tilefni af ræðu hv. þingmanns og stefnu flokks hennar. Við höfum breytt þingsköpum á þann norræna veg að stjórnarandstæðingar eiga að fá formennsku í nefndum og erum að þoka skipulagi hér á þingi að því sem helst gerist a.m.k. í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Nú háttar þannig til að þar er skipulag ráðuneyta og áhrif þingsins með svipuðum hætti og lagt er til í (Forseti hringir.) frumvarpinu. Telur hv. þingmaður að þetta sé vond skipan og að þingin í Noregi, Svíþjóð (Forseti hringir.) og Danmörku hafi farið illa út úr þessu kerfi?