139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:44]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er einmitt fundarstjórn forseta sem ég vildi fá að ræða. Ég verð að segja eins og er að ég undrast satt að segja þær kúnstir hæstv. forseta að svara ekki þeirri einföldu spurningu sem var borin fram við upphaf þessarar umræðu um fundarstjórn forseta. Það hefði bæði sparað tíma og það hefði sparað okkur sporin upp í ræðustólinn ef hæstv. forseti hefði látið svo lítið að svara þessari einföldu spurningu.

Ég kann ekki við það að hæstv. forseti sé að leika einhverja véfrétt frá Delfí og forakta þingmenn og neita að svara jafneinföldum spurningum og þessum. Það vekur að vísu athygli að það skuli vera áhersluatriði ríkisstjórnarinnar nr. 1 að afgreiða mál sem felur það í sér að færa vald frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra. Það er út af fyrir sig pólitísk yfirlýsing um forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar. En einföld spurning frá þingmönnum til hæstv. forseta, forseta alls þingsins vel að merkja, ætti að vera þannig að það ætti að vera hægt að svara henni án þess að vera að setja á einhverjar kúnstir eins og hæstv. forseti gerir með viðbrögðum sínum hér í kvöld.