139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum dagskrárlið undir svona mál sem er stjórn fundarins. Það er frú forseti sem stjórnar fundi og getur að sjálfsögðu ákveðið að taka inn sérstaka umræðu um t.d. skýrslu efnahagsráðherra um stöðu Íslands ef til þess kæmi að einhver ósköp dyndu yfir í Evrópu. Það getur vel verið að við njótum einangrunar, njótum þess að vera í gjaldeyrishöftum og þurfum ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef illa fer í Evrópu, sem ég vona innilega að gerist ekki, þá hefur það gífurleg áhrif á Íslandi því að við flytjum út mikið af áli, mikið af fiski og fáum hingað fjölda ferðamanna frá Evrópusambandinu sem hugsanlega gæti allt farið í baklás.