139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þá væri gott að vita um afstöðu þingmannsins til þess hvort við eigum þá að taka aftur þingsköpin sem við höfum nýsamþykkt og nema brott úr þeim þessa ráðstöfun um það að formenn þingnefnda geti komið úr hópi stjórnarandstæðinga. Við erum með allt aðra hefð. Hér eru bara meirihlutastjórnir. Við erum vön átakastjórnmálum og erum ekki með þetta liðuga skandinavíska kerfi, sem hv. þingmaður veit að vísu ekkert mjög mikið um, nema að það hentar okkur sem sé ekki að hafa sömu skipan á skiptingu ráðuneyta, að fela hana framkvæmdarvaldinu, eins og gert er í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, án þess að Ríkisdagurinn, Stórþingið eða þjóðþingið í Danmörku beri skaða af, heldur eru þau fyrirmynd annarra þjóðþinga og annarra ríkja, hvað það er sterkt, hvað þingið ræður miklu og hvað það starf sem þar er unnið fer vel fram.