139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er langur tími liðinn síðan þessi umræða átti sér stað en auðvitað getum við lært margt af fortíðinni. Ég tel, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að það sé algerlega í lausu lofti hvernig ráðuneytum skuli skipt og hversu mörg þau eru og að ekki sé ljóst hversu lengi sú ráðuneytisskipting sem í gildi er hverju sinni eigi að vera við lýði. Það er of mikil lausung hvað það varðar. Eins er ákveðin lausung falin í því ákvæði sem ég spurði hv. þingmenn allsherjarnefndar sérstaklega út í, að geta skipt upp ráðuneytum og flutt þau í hlutum hingað og þangað. En það má þó ekki vera þannig að við getum ekki endurskoðað hluti sem betur mega fara. Við megum ekki vera það formföst að við megum engu breyta. Hvort við erum að fara fram fyrir þann tíma sem lögin um Stjórnarráð Íslands voru sett, tel ég að sagan ein geti dæmt um.