139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu og hann fór mjög víða í máli sínu. Nú er það svo að það eru fáir þingmenn, hygg ég, á Alþingi sem eru jafnduglegir að ferðast um landið, hitta fólk, mæta á samkomur og hv. þingmaður.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess sem fram hefur komið í umræðunni, um þá miklu meinbugi sem eru á þessu frumvarpi, það foringjaræði sem það boðar og annað því um líkt, hvort hann verði var við það á ferðum sínum um kjördæmið og um landið að þjóðin sé að kalla mjög eftir þessu frumvarpi og því efni sem í því er? Og hverju þjóðin er öðru fremur að kalla eftir öðru en því sem í þessu frumvarpi er, ef þingmaðurinn gæti farið yfir þetta hvort hann verði var við þessa miklu eftirspurn eftir frumvarpinu.