139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli forseta á því að nú virðist sem stjórnarliðar séu farnir að leika það að fara í andsvör og falla svo frá þeim. Í það minnsta hefur það verið gert síðustu einn og tvo tíma. Mig langar að beina því til forseta að tryggja það að við sem svo sannarlega viljum fara í andsvör og veita þau, fáum þann tíma sem til þess er ætlaður og að þeir sem taka einungis tíma frá lýðræðislegri umræðu verði beðnir um að huga að því að láta af þeirri iðju.

Þá vil ég einnig hvetja forseta, ekki endilega þann er nú situr, til að ræða það almennt við forseta að sýna þingmönnum þá kurteisi þegar þeir eru í ræðustól að vera ekki með yfirlætisleg svipbrigði og annað hér á bak við sem sést í myndavélum út um allt land (Forseti hringir.) þó svo að þeir séu ekki hlynntir því sem þingmennirnir hafa fram að færa. (Forseti hringir.)