139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fyrst smá ábending til hæstv. forseta vegna þessarar andsvaraumræðu. Ég sé ekkert í þingsköpum sem kemur í veg fyrir að þegar þingmenn falla frá andsvörum geti hæstv. forseti nýtt þann tíma sem er afgangs til þess að leyfa öðrum sem komust ekki að að veita andsvör. Þannig má leysa þetta vandamál.

Aðalástæðan fyrir því að ég kem hér upp er að ég vil taka undir ábendingu hv. þm. Péturs H. Blöndals um mikilvægi þess að þingið fari að ræða þau mál sem eru brýnust þessa dagana. Það mál sem hefur verið til umræðu í dag og í gær er auðvitað stórt mál og mikilvægt en það er ekki brýnt. Á meðan eru fjölmörg óleyst mál innan lands og eins þurfum við, eins og hv. þingmaður benti á, að ræða það hvernig við ætlum að bregðast við þeim gríðarlega stóru atburðum sem eru að eiga sér stað í löndunum í Evrópu. Við getum ekki verið (Forseti hringir.) algjörlega óundirbúin þegar við sjáum í hvað stefnir þar. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill af tilefni af orðum hv. þingmanns vekja athygli á því að enn eru 12 þingmenn á mælendaskrá þannig að áhugi á þátttöku í umræðum um málið sem nú er á dagskrá er enn mikill.)