139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að heyra þann pirring sem birtist í ummælum hv. þm. Marðar Árnasonar um það málfrelsi sem við höfum í þinginu. Ég hef flutt eina 40 mínútna ræðu og fjallaði þar um með hvaða hætti grunnurinn að málinu virðist ekki vera í lagi, þ.e. hér er sagt að það sé byggt á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar en svo vantar stóra kafla þar inn í. Ég benti á ákveðin atriði og vildi fá ákveðin svör. Þeim svörum reyndi hv. þingmaður að koma hér að í stuttu andsvari við mig í gær, en ég vonast til að í seinni ræðu minni nái ég að klára málflutning minn. Ég átti eftir að fara yfir ákveðin atriði varðandi þrískiptingu ríkisvaldsins meðal annars. Síðan væri ég mjög áfram um að fá að heyra svör þeirra hv. þingmanna sem sitja í meiri hluta allsherjarnefndar og eru á nefndaráliti meiri hlutans við þeim spurningum sem ég lagði fram. Ég get ekki séð (Forseti hringir.) að þetta sé málþóf. Ég get einfaldlega ekki séð annað en að hér fari fram efnisleg umræða um þetta stóra mál. Hvað er að því?