139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar aðeins að minnast á, af því að umræðan var komin út í hvalveiðar og mögulegan flutning á málaflokkum milli ráðuneyta og vitnað var til ræðu Péturs Blöndals í því samhengi, að nýlega var talsverð umræða um einmitt hvalveiðar. Það liggur ljóst fyrir að í það minnsta hv. þingflokkur Samfylkingarinnar vill hætta einhliða hvalveiðum og afsala sér þeim alfarið til Evrópusambandsins og krafa hefur komið frá sambandinu um að hvalveiðum skuli hætt hér. Sumir hafa nefnt að það verði að gerast áður en köflum um umhverfismál sé lokað o.s.frv. Vandinn er hins vegar sá hjá Samfylkingunni að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill að Íslendingar ákvarði sjálfir hvort þeir stundi hvalveiðar eða ekki.

Kjarni málsins sem ég ætlaði að koma inn er þessi: Erum við ekki einmitt komin þarna að kjarnanum í frumvarpinu, að flytja málaflokka milli ráðuneyta og þeirri grein sem fjallar um það að hægt sé einhliða að flytja málaflokka milli ráðuneyta? Hv. þm. Pétur Blöndal benti á þetta í ræðu sinni og einmitt í sambandi við Evrópusambandsumsóknina. Getur ekki líka verið að reiði hv. stjórnarliða stafi að einhverju leyti af því að menn eru búnir að koma auga á þetta og eru að ræða þetta sem er kjarninn í þessu frumvarpi? Að þeir bregðist svona reiðir við vegna þess að allt er að sigla í strand og mun gera það ef forsætisráðherra fær ekki þær heimildir sem frumvarpið ber með sér?