139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég styð tillögu forseta. Það er fullkomlega ómaklegt og rangt að forsætisráðherra hafi verið sá eini á fundum okkar í gær sem ekki hafi sýnt samkomulagsvilja. Það var þveröfugt. Öll hreyfingin í málinu í gær var í formi tillagna okkar forsætisráðherra um málamiðlanir og að ganga til móts við megingagnrýnisatriði stjórnarandstöðunnar í þessum tveimur stóru málum sem aðalátökin hafa snúist um. Það er staðreynd.

Á fyrsta fundinum lögðum við fram tilboð um verulegar tilslakanir í báðum tilvikum og reyndum þar að mæta þeim gagnrýnisatriðum sem helst má ráða af málflutningi stjórnarandstöðunnar að uppi hafi verið. Á fundi síðar um daginn bættum við í það tilboð og sögðum jafnframt að við sæjum ekki að við gætum boðið betur, t.d. í tilviki áætlunar um afnám gjaldeyrishafta, sem er gríðarlega vandasamt og stórt og viðamikið mál þar sem menn verða að stíga af ábyrgð niður til jarðar. Það er stórt og mjög mikilvægt verkefni, að þar takist vel til um afnám gjaldeyrishaftanna (Forseti hringir.) án þess að jafnvægi raskist í þjóðarbúskap okkar og gjaldeyrisvaraforðinn fari forgörðum o.s.frv. Ég vil því leyfa mér að minna hv. þingmenn á að innan um í karpinu er hollt að hafa það í huga að við erum (Forseti hringir.) stundum að tala um stór, mikilvæg og afdrifarík mál sem menn eiga að nálgast af ábyrgð.