139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[15:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er náttúrlega þannig að þegar menn standa í málþófi, eins og tveir stjórnmálaflokkar á þinginu gera núna, fer dagskrá þingsins úr skorðum. Og þá verður forseti að haga því þannig að sú riðlun komi ekki niður á þeim sem eru að reyna að taka þátt í störfum þingsins með venjulegum hætti, t.d. og sérstaklega reyndar þeim sem hafa lagt fram fyrirspurnir og beðið einmitt í þrjá mánuði eftir svari við þeim. Ég er í sömu stöðu og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem talaði áðan.

Það vekur athygli mína að ekkert lát er á óundirbúnum fyrirspurnum þar sem ráðherrar koma og svara spurningum úr blöðum, úr fréttum gærkvöldsins, úr dagblöðum dagsins.

Ég fer fram á að forseti láti svara þessum fyrirspurnum sem ósvarað er í tíma sem venjulega er ætlaður til þess að ráðherra svari óundirbúnum fyrirspurnum, því að ef eitthvað er eiga hinar undirbúnu fyrirspurnir sem lagðar hafa verið fram skriflega að ganga fyrir hinum. (Gripið fram í: Heyr.)