139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[15:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa smáhlé á umræðu um stjórnarráðsfrumvarp hæstv. forsætisráðherra til að ræða önnur og brýnni mál.

Umræður um stöðu og skuldir íslenskra heimila hafa nú staðið í um það bil þrjú ár en ávinningurinn af þeim umræðum hefur því miður ekki orðið sem skyldi, ekki hvað síst vegna þess að þar hafa menn ekki, sama hversu mikið hefur verið rætt um málið, verið reiðubúnir að hlusta á rök og staðreyndir.

Ég ætla ekki að verja löngum tíma í að rekja sögu glataðra tækifæra í þessum málaflokki en ég vil þó leggja áherslu á að ástæðan fyrir því að ótal tækifæri kunna að hafa glatast og mörg hver hafa örugglega glatast með verulegum kostnaði fyrir íslensk heimili og íslenska ríkið er ekki hvað síst sú að málin fengust ekki rædd út frá staðreyndum. Ég vonast því til að nú geti menn metið þá stöðu sem uppi er og skoðað hvort staðreyndirnar eins og þær liggja fyrir veiti ekki tækifæri til þess að taka á málinu.

Nýlega kom fram í tilkynningu frá fjármálafyrirtækjum að afskriftir á undanförnum tveimur árum hefðu numið tugum og hundruðum milljarða króna. Þegar betur var að gáð var þar fyrst og fremst um að ræða afskriftir til fyrirtækja og þá líklega helst fjárfestingarfyrirtækja sem höfðu farið illa út úr efnahagshruninu en einnig afskriftir vegna dóms Hæstaréttar um ólögmæt myntkörfulán. Annars konar almenn leiðrétting á skuldum heimilanna, einkum og sér í lagi verðtryggðum fasteignaskuldum, er hins vegar ekki umtalsverð, nemur líklega nokkrum milljörðum. Að miklu leyti er þetta til komið vegna 110%-reglunnar svokölluðu en hún var niðurstaða maraþonfundahalda sem boðað var til í Þjóðmenningarhúsinu eftir mikil mótmæli síðastliðið haust. Niðurstaðan varð í samræmi við það sem bankarnir höfðu þá þegar gert ráð fyrir og boðist til að ráðast í þannig að aðkoma stjórnvalda og þessi miklu fundarhöld virtust skipta óskaplega litlu máli.

Til viðbótar við þessar tölur um afskriftir sjáum við hvað eftir annað ótrúlegar hagnaðartölur nýju bankanna, hagnaðartölur sem jafnast á við það sem var hér á árunum 2007 og fyrri part árs 2008. Að langmestu leyti er þetta til komið vegna þess að menn hafa verið að endurmeta þær eignir sem færðar voru í þessa nýju banka, meta verðmæti þeirra hærra. Og hvaða eignir eru þetta? Þetta eru skuldir, ekki hvað síst skuldir íslenskra heimila sem nýju bankarnir keyptu með verulegum afslætti en eru nú að færa upp í verðmæti, ætla sem sagt að innheimta meira en gert var ráð fyrir að innheimtist í upphafi og styrkja með því eiginfjárstöðu sína.

Er hæstv. velferðarráðherra sammála mér um það að bankarnir ættu að forgangsraða með öðrum hætti? Í stað þess að nota afskriftasvigrúm sitt til þess að auka eigið fé bankanna, ættu þeir að láta það ganga áfram til lántakenda og færa niður lán? Er hæstv. ráðherra sammála mér um að þannig væri þessu fjármagni vel varið eða þessu svigrúmi? Og munu stjórnvöld beita sér fyrir því að bankarnir nýti svigrúmið til að ráðast í almenna lánaleiðréttingu, einkum og sér í lagi með það að markmiði að draga úr áhrifum af ófyrirsjáanlegum verðbólguskotum í kjölfar hrunsins?

Stjórnvöld hafa ýmis ráð til þess að fá bankana í lið með sér hvað þetta varðar hafi þau áhuga á því. Eitt er auðvitað að skapa einhverja framtíðarsýn og útskýra mikilvægi þess að allir leggist á eitt við það að koma hér efnahagslífinu af stað. Það er bönkunum sjálfum ekki í hag að stór hluti íslenskra heimila sé ekki gjaldfær, sé ekki fær um að taka þátt í samfélaginu og staðan sé jafnvel þannig að fólk telji sér ekki fært að ráða sig í vinnu vegna þess að ef það auki tekjur sínar þurfi það að fara að borga af lánum sem það á ekki fyrir.

Annað sem stjórnvöld gætu gert væri að veita bönkunum einhvers konar fyrirheit í skattamálum um einhvern stöðugleika til að skapa hvata til að þeir láti það svigrúm sem þeir hafa ganga áfram til almennings. Munu stjórnvöld beita sér fyrir því að bankarnir láti svigrúm sitt til afskrifta ganga áfram og hvaða aðferðir sjá stjórnvöld fyrir sér í því efni?