139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Stjórnarliðar hafa komið upp í andsvör í dag og vísað gjarnan til Norðurlandanna varðandi stjórnarráðsmál.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Er ekki einkennilegt að slíkt sé notað sem rök í því máli sem liggur fyrir þessum þingfundi, þ.e. flutningi alræðisvalds til forsætisráðherra, þegar ekki er tekið tillit til þess að annars staðar á Norðurlöndunum eru til dæmis starfræktar lagaskrifstofur sem eru sía fyrir óvönduð lagafrumvörp inn í þjóðþingin? Ekki er tekið tillit til slíks hér þrátt fyrir augljós ákvæði í rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannanefndarinnar að fyrst og fremst þurfi að styrkja Alþingi Íslendinga en ekki framkvæmdarvaldið. Er ekki einkennilegt að taka út ein rök varðandi þjóðþing Norðurlandanna til að styðja við stjórnarráðsfrumvarp á Íslandi en sleppa svo mikilvægum þáttum sem eru svo hróplega í andstöðu við allt hér?