139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir mjög fína ræðu þar sem hann fór vel yfir þetta mál og rakti meðal annars ástæður þess af hverju við erum sammála, ég og hann, um að það sé ekki vænlegt að flytja valdið um skipan Stjórnarráðsins frá Alþingi til forsætisráðherra.

Eins og þingmaðurinn sagði snýst þetta um að hafa tækifæri til að hlusta á umsagnir, bæði á þinginu og frá umsagnaraðilum, og það er mjög mikilvægt að hlusta á þetta allt. Einnig rakti hann vel hversu miklar breytingar hafa verið gerðar í gegnum tíðina þrátt fyrir að ríkisstjórnir hvers tíma hafi þurft (Forseti hringir.) að koma hingað og fá leyfi frá Alþingi. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann: Hvort telur hann að þessar breytingar, verði þær samþykktar, (Forseti hringir.) feli í sér lausung eða formfestu?