139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og þau nefndarálit sem dreift hefur verið frá meiri hluta og tveimur minni hlutum í hv. allsherjarnefnd.

Eins og ég hef margoft sagt og vil undirstrika það að margt í frumvarpinu er til bóta. Verið er að skerpa á vinnuferlum, verið er að tryggja skráningar o.s.frv., margt af því sem hefur farið úrskeiðis. Svo ætla menn að auka sveigjanleika. Menn ætla að auka sveigjanleikann, ég er líka hlynntur því. Ég er hlynntur því að sveigjanleikinn sé aukinn, en menn ganga hættulega langt. Ég er næstum fullviss um að menn hafi ekki áttað sig á því hvað þeir eru í rauninni að gera. Ég fullyrði það.

Ég hef beðið menn um að máta þetta frumvarp við sterka einstaklinga sem við þekkjum úr fortíðinni, ákveðna einstaklinga, og athuga hvernig þeir mundu bregðast við. Þá var kallað frammí á sínum tíma þegar ég hélt ræðuna að þetta hefði nú verið gert engu að síður. En í hvaða stöðu er Alþingi ef menn eru með einræðistilburði með stuðningi í lögum, frú forseti? Mér líst illa á það.

Þegar frumvarpið er lesið, maður þarf ekki að lesa nema fyrstu greinarnar sem eru ekkert voðalega langar, eru í því skýr skilaboð um að forsætisráðherra, hver sem hann verður í framtíðinni — mér finnst stundum eins og menn séu að vinna hérna með einhverja skammtíma- eða bráðabirgðalög. Þetta er frumvarp sem á að gilda í 30, 40 ár, kannski 100 ár. Allir þeir einstaklingar sem munu verða forsætisráðherrar á þeim tíma fá með frumvarpi þessu, ef að lögum verður, ómæld völd. Og það sem meira er, þeir fá valdastuðning til að hóta og kúga. Ég er ekki viss um að menn hafi áttað sig á því hvað þetta þýðir.

Ég er ánægður að sjá að hér eru fleiri stjórnarliðar mættir og fá þá kannski að heyra eitthvað annað. Ég bíð mjög spenntur eftir því að heyra í hv. þm. Atla Gíslasyni sem hér talar á eftir. Ég bíð verulega spenntur eftir því vegna þess að í frumvarpinu er margoft vitnað til þess að þetta byggi á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 7 stendur, með leyfi forseta:

„Ljóst er að niðurstöður í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru áfellisdómur yfir stjórnsýslu efnahagsmála í landinu. Hrunið og atburðarásin í aðdraganda þess reyndi mjög á getu stjórnsýslunnar til viðbragða, samhæfingar, eftirlits, stefnumótunar og skynsamlegrar ákvörðunartöku. Við slíkar aðstæður er viðbúið að veikustu hlekkirnir í keðjunni gefi sig. Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má ráða að helsti veikleiki íslenskar stjórnsýslu hafi verið skortur á samhæfingu þeirra stjórnvalda sem störfuðu að skyldum verkefnum á sviði efnahagsmála.“

Síðan segir að þessi skýrsla „nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands, Samhent stjórnsýsla, er byggð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu starfshóps forsætisráðherra og skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.“

Núna bíð ég mjög spenntur eftir því hvort formaður þingmannanefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar geti staðfest það að frumvarpið sé í samræmi við og byggt á því starfi. Vegna þess að sú nefnd sagði að Alþingi væri allt of veikt og framkvæmdarvaldið væri of sterkt og foringjaræðið væri of mikið. Það kom fram í nefndinni.

Þess vegna bíð ég mjög spenntur eftir því vegna þess að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var reyndar í þingmannanefndinni, hefur talað hér og sagt að þetta sé ekki í samræmi við niðurstöðu þingmannanefndarinnar og þetta auki vald framkvæmdarvaldsins á kostnað Alþingis, öfugt við það sem þingmannanefndin lagði til og var samþykkt hér þingsályktun, 63:0, af Alþingi.

Ég fór í gegnum þessi atriði. Ég vildi gjarnan að hv. þingmenn læsu fyrstu tíu greinarnar. Ég skora á hv. þingmenn að lesa þær. Þetta er ein síða í smáu broti. Það stendur alls staðar að það skuli vera forsætisráðherra sem fari til forseta, þ.e. „fjöldi ráðuneyta innan þeirra marka skal ákveðinn með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“ Forsætisráðherra ákveði sem sagt fjölda ráðuneyta hvenær sem er. Hann gæti bara skipt því út — þetta er mjög mikill sveigjanleiki. En það er forsætisráðherra sem ræður þessu. Hver einasti ráðherra í ráðuneyti hans veit að þetta vald hefur forsætisráðherra hverju sinni. Það er þá eins gott að vera hlýðinn og góður við forsætisráðherra.

Þetta frumvarp er eins konar — í hundaskóla mundi maður, frú forseti, ég ætla nú ekki að líkja þessu saman, en þetta er svona hlýðniákvæði, frú forseti.

Síðan er 4. gr., hún er nú öllu verri því að þar stendur — það er reyndar búið að breyta henni með breytingartillögum, maður þarf því dálítið að vara sig. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti“ — þetta heyrir undir ráðuneyti, mundi ég segja á íslensku — „eftir ákvæðum forsetaúrskurðar“ — forsetinn úrskurðar — „sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Sem sagt, forsætisráðherra þarf aðeins að gera sér ferð til forsetans og biðja hann um að kveða upp forsetaúrskurð, sem hann gerir að sjálfsögðu því að honum ber að gera það samkvæmt stjórnarskránni, um að flytja ákveðið málefni frá ákveðnu ráðuneyti, þ.e. ráðherrar vita það hér með, eftir samþykkt þessa frumvarps, að ef þeir eru eitthvað óþekkir eða í einstökum málum kemur upp deila milli þeirra og forsætisráðherra þá er það forsætisráðherra sem alltaf ræður. Þá er bara eins gott að vera hlýðinn strax í byrjun.

Ég hef nefnt hérna Evrópusambandið, þ.e. afstöðu hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til Evrópusambandsins og ég nefndi jörðina sem verið er að selja á Norðausturlandi. Hægt er að hugsa sér mörg tilfelli þar sem forsætisráðherra þarf ekki nema eitt símtal til viðkomandi ráðherra og segja: Ef þú gerir þetta ekki eins og ég vil hafa það tek ég málefnin frá þér með þessu ákvæði.

Það sem meira er, frú forseti, í 5. gr. er þessi þvingun ítrekuð með því að segja: „Nú er stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta, sbr. 4. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.“ Ef einhver er með eitthvert múður, einhver ráðherra í einhverju einu máli, hvort sem það er Evrópusambandið eða jörðin fyrir norðan, fangelsið eða hvað sem er, og forsætisráðherra er ekki sáttur við það segir hann: Nú ætla ég að flytja það og hinn ráðherrann sem tekur við því afgreiðir málið, hann klárar það samkvæmt 5. gr. Ef forsætisráðherra finnur ekki nógu hlýðinn ráðherra í ráðuneyti sínu flytur hann það til sjálfs sín á meðan hann úrskurðar, svo flytur hann aftur til baka.

Ég held að hv. þingmenn sem standa að frumvarpinu og styðja það — ég vil sérstaklega höfða til hv. þm. Róberts Marshalls sem hlýðir á mál mitt — verði að svara því hvort þetta eigi virkilega að vera svona, hvort sveigjanleikinn eigi að vera þannig að ein persóna, forsætisráðherra, ráði öllu í ríkisstjórninni. Öllu. Hvort þetta sé virkilega þannig að þetta eigi að vera eins manns ráðuneyti og engin önnur sjónarmið komist að en sjónarmið hæstv. forsætisráðherra. Ég hef spurt um þetta en ég hef ekki enn fengið svar við því, hv. þingmaður hefur ekki svarað þessu.

Sú breytingartillaga sem fram hefur komið lagar þetta að einhverju leyti, en bara með því að hafa eina umræðu, þannig að það er engin umræða í þjóðfélaginu. Það eru engar umsagnir, engir gestir og málinu ekki vísað til nefndar. Þetta verður því mjög fátækleg umræða og verður allt of lítil.

Ég held að menn ættu að reyna að finna einhvern flöt á því að leysa málið einhvern veginn, t.d. með því að hafa meiri umræðu, umsagnir og svoleiðis, þannig að forsætisráðherra geti ekki gert þetta upp á sitt einsdæmi.