139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Auðvitað höfum við ekki skyggnigáfu en hv. þingmaður talaði í kringum það sem einmitt flestir eru búnir að koma auga á, að svo virðist sem meginhugmyndir þessa frumvarps séu fyrst og fremst lagðar fram í þeim tilgangi að gera forsætisráðherra kleift að takast á við innri vandamál í ríkisstjórninni. Er það ekki svolítið sérstakt á þessum tímum að þetta sé gert svona, að við þurfum að horfa upp á að verið sé að færa völd frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins til að takast á við innri vandamál ríkisstjórnarinnar? Og er ekki veruleg hætta á því að þetta muni í auknum mæli verða á fleiri sviðum? Það getur orðið á fleiri sviðum að hæstv. forsætisráðherra sjái hag sínum betur borgið í því að færa aukið vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins.