139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Já, ráðherrar voru þingmenn hér í stjórnarandstöðu á árum áður og beittu ýmsum brögðum til að fá menn í hús. Við ætlum ekki að gera það, hins vegar er málefnaleg krafa okkar og ástæða fyrir því að við biðjum um þessa tvo ráðherra það sem kom fram við bókun á ríkisstjórnarfundi fyrr á þessu ári þar sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bókaði sérstaklega andstöðu við þetta frumvarp. Hvað gerði hæstv. innanríkisráðherra? Hann setti fyrirvara við frumvarpið.

Ég held að það skipti miklu máli, ekki síst í ljósi þeirra umræðna sem hafa verið í dag um svonefnda tillögu ákveðinna þingmanna í Framsóknarflokknum og Hreyfingunni, að við fáum viðhorf þessara hæstv. ráðherra til þeirra tillagna þannig að við getum rætt þær við þá og hvort þeir taki ekki undir með okkur í stjórnarandstöðunni með það að við getum geymt þetta mál — ég er ekki að tala um að slátra málinu eins og sumir mundu kalla það hér — meðan það er rætt betur manna á meðal þannig að (Forseti hringir.) það verði hægt að fara í þessi mál sem allir eru að kalla á (Forseti hringir.) að Alþingi afgreiði, eins og málefni (Forseti hringir.) heimilanna. Ég hefði haldið að þessir menn sem hafa sett (Forseti hringir.) fyrirvara og bókað afstöðu (Forseti hringir.) í ríkisstjórn (Forseti hringir.) sæju sóma sinn í (Forseti hringir.) að mæta (Forseti hringir.) í þingið.

(Forseti (ÁI): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að kanna hvort hæstv. innanríkisráðherra getur komið til fundarins. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er hér í húsi og hefur verið meira og minna í allan dag og hlýtt á umræðu sem og þrír aðrir hæstv. ráðherrar sem eru nú í húsi.)