139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:43]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Enn efnir hæstv. forsætisráðherra til deilna og setur störf Alþingis í uppnám á lokadögum þessa þings, sambærilegt við það sem gerðist í vor og hefur gerst áður, og það án fulls stuðnings ráðherra í ríkisstjórninni og jafnvel í stjórnarliðinu og vegna málefnis sem er fjarri því að vera forgangsmál í þeim vanda sem þjóðin glímir við, málefnis sem var fyrirséð að mundi valda miklum deilum og yrði mjög umdeilt. Miklu veldur sá er upphafinu veldur.

Minn tími kemur, sagði hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma eins og fleygt varð. Hennar tími kom, en hann kom án nokkurra breytinga á þeirri stjórnmálamenningu liðinna áratuga sem gagnrýnd var svo harkalega í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í 8. bindi skýrslunnar er á bls. 179 fjallað um íslenska stjórnmálamenningu sem hæstv. forsætisráðherra hefur hrærst í um áratugaskeið og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þau dæmi sem tekin hafa verið hér að framan um viðbrögð og verklag í íslensku stjórnkerfi eru til marks um ákveðna stjórnmálamenningu. Eitt einkenni hennar er að foringjar eða oddvitar flokkanna leika lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður er atkvæðalítill. Um það segir íslenskur stjórnmálamaður með langan feril úr pólitíkinni: „Auðvitað er það svo að flokksræðið nánast í öllum stjórnmálaflokkunum hefur þróast í ofurvald foringjans og klíkunnar. Þess vegna er lýðræðið okkar svona brothætt og veikt og ég velti því fyrir mér hvort í rauninni þurfi ekki að stíga mörg sterk skref vegna þessarar reynslu til að tryggja sterkari stjórnmálamenn og minna foringjaræði.“ Stjórnmálamenn draga hins vegar ávallt dám af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í. Séu stjórnsiðirnir slæmir og stjórnkerfið veikt geta sterkir stjórnmálamenn verið varasamir. Í foringjaræði verður hlutur löggjafarþingsins einkum að afgreiða mál sem undirbúin hafa verið í litlum hópi lykilmanna. Þannig gegnir þingið formlegu löggjafarhlutverki sínu, en bæði umræðuhlutverkið og eftirlitshlutverkið eru vanrækt.“

Svo mörg voru þau orð. Á sömu bls. 179 segir um hina lýðræðislegu umræðu, með leyfi herra forseta:

„Hugtakið samræðustjórnmál á rætur sínar í þessari hugsjón um þingið sem vettvang rökræðu sem tekur öðru fremur mið af almannahagsmunum. Markmið rökræðu er að lýsa upp málefni; því verður hún að byggjast á upplýsingum um staðreyndir mála og sá sem stundar rökræðu af heilindum leitast við að hafa það sem sannara reynist. Gildi stjórnmálarökræðunnar er meðal annars fólgið í því að láta andstæð sjónarmið takast á og það er hlutverk stjórnarandstöðu að láta reyna á málflutning stjórnarliða til að skerpa röksemdir. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast í samræmi við þessa hugsjón lýðræðisins. Þau hafa þvert á móti oft einkennst af kappræðu og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áheyrendur, burt séð frá því hvort það þjóni best almannahagsmunum og sé í samræmi við bestu upplýsingar. Í kappræðum skipast þingmenn í sveitir eftir fyrir fram gefnum flokkslínum fremur en eftir málefnum.“

Síðar segir á bls. 180 annað athyglisvert sem skiptir máli varðandi það frumvarp sem hér er til umræðu. Tilvitnunin er svohljóðandi, með leyfi herra forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Skyldi maður geta mátað þessar niðurstöður rannsóknarskýrslunnar við þetta frumvarp? Já. Það held ég að sé, og það hafa margir hv. þingmenn rökstutt afar málefnalega í ræðum um þetta mál, með því frumvarpi sem einbeittur vilji hæstv. forsætisráðherra stendur til að koma í gegnum þingið þótt önnur og brýnni mál séu á dagskrá. Það er að mínu mati í anda þeirrar stjórnmálamenningar sem ég hef rakið og rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýnir svo harðlega. Staðreyndin er sú hvað sem tautar og raular að það er verið að færa aukin völd til forsætisráðherra. Í því felst framsal á löggjafarvaldi, atriðum sem nú er skipað með lögum sem ítarlega hafa verið rökstudd eins og ég sagði áðan.

Í meginniðurstöðum og ályktunum þingmannanefndarinnar er tekið undir niðurstöður í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslu þingmannanefndarinnar segir orðrétt um Alþingi á bls. 5, með leyfi herra forseta:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki [að] vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Má spegla þetta frumvarp í þessu? Ég segi já við því. Framgangur þessa frumvarps er ekki með þeim hætti sem þarna er lýst og komið hefur fram réttmæt gagnrýni á að hér hafi ekki verið skipst á skoðunum. Hér hefur ekki verið svarað spurningum ýmissa hv. þingmanna og leitast við að upplýsa málið. Málið hefur ekki verið unnið með þeim faglega hætti sem til að mynda einkennir undirbúning lagafrumvarpa annars staðar á Norðurlöndum.

Á bls. 15 í skýrslu þingmannanefndarinnar er að finna tillögu til þingsályktunar sem Alþingi afgreiddi fyrir hartnær ári með 63 greiddum atkvæðum. Eitt atriði í því er orðrétt svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.“

Þetta gildir auðvitað um Alþingi jafnt og ríkisstjórn á hverjum tíma enda er hún skipuð alþingismönnum yfirleitt.

Frá því að ég settist á þing vorið 2007 hef ég gengið í gegnum einar fimm umræður um stjórnarráðsbreytingar, fyrst á haustþingi 2007, og í raun hefur ekkert breyst á þessum tíma. Nei, ekki alveg rétt, það hafa orðið stjórnarskipti. Skipt hefur verið um hlutverk, Sjálfstæðisflokkurinn er í stjórnarandstöðu en Vinstri hreyfingin – grænt framboð í stjórn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð gagnrýndi harkalega stjórnarráðsbreytingar árið 2007 og nú er Sjálfstæðisflokkurinn tekinn við, flokkur sem varði breytingarnar 2007 og aðfinnsluverð vinnubrögð við þær og undirbúning. En vel að merkja, Sjálfstæðisflokkurinn hefur það sér þó til málsbóta í þessum efnum að í millitíðinni kom fram skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og síðan skýrsla þingmannanefndarinnar þar sem ályktað var og afstaða tekin til niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ég hef ekki hvikað frá sjónarmiðum sem ég hef flutt fram um stjórnarráðsbreytingar úr þessum ræðustóli frá árinu 2007. Ég vísa meðal annars til ræðna sem ég flutti á haustþingi 2007 og til ræðu 4. maí sl. um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Á haustþingi 2007 eyddi ég miklum tíma í að ræða ófaglegan og óvandaðan undirbúning slíkra frumvarpa. Það er illt að Alþingi lendi í gíslingu deilna um jafnmikilvæg mál og þetta sem jafnmikill og -réttmætur ágreiningur er um af því að þetta snýst um grundvallaratriði, snýst um sjálfstæði þingsins, framsal á löggjafarvaldi, oddvitaræði, að okkur þingmönnum skuli stillt upp við hver þinglok með þessum hætti. Það er óþolandi.

Þetta gerist í málum sem unnt er að ná bærilegri sátt um. Það heyrðist ágætlega úr ræðustóli í dag, það komu fram ýmsar hugmyndir en þær hafa bara ekki verið unnar fram. Þessi sátt átti að nást í meginatriðum með vandaðri undirbúningsvinnu áður en frumvarpið var lagt fram. Virðing Alþingis er í húfi og sjálfstæði þess gegn ofurvaldi framkvæmdarvaldsins, ekki bara í þessu máli heldur mörgum öðrum. Það eru nokkur mál sem er enn brýnna að ná samstöðu um en önnur, það er deginum ljósara. Það þarf að tryggja formfestu og stöðugleika og ég hygg að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hafi tilgreint þau í ræðum um stjórnarráðsbreytingarnar á haustþingi 2007. Hver skyldu þá þessi mál vera sem við verðum að ná samstöðu um? Þetta eru ekki augnabliksmál, ekki málefni líðandi stundar. Þetta eru ekki málefni sem eiga að bjarga okkur í gegnum eitt ár, tvö eða þrjú. Þetta eru mál sem verða grundvallaratriði í stjórnskipun okkar og stjórnarfari varðandi Alþingi o.fl. Hver eru þessi mál sem ég hygg að hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafi nefnt? Jú, hann nefndi auðvitað stjórnskipunina, stjórnarskrána. (Gripið fram í: Greindur maður.) Hann nefndi stjórnarfarsreglur, grundvöll stjórnsýslunnar, þar með talin lög um Stjórnarráðið. Hann nefndi eðlilega lög um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipan. Hann nefndi eðlilega þingsköp og þar verð ég að hrósa forsetum Alþingis og þinginu. Við höfum nýlega gengið í gegnum það að breyta þingsköpum Alþingis akkúrat í þeim anda sátta sem þarf til í þessum grundvallarmálum og gengum frá því borði með sóma.

Viljum við upplifa það að með hverri nýrri ríkisstjórn sé krukkað í þessar grundvallarreglur? Vilja menn að hver ný ríkisstjórn taki sig til og breyti þessum grundvallarreglum? Nei, það held ég ekki. Þetta eru mál sem varða fleiri en eina ríkisstjórn og löggjöf sem er sett til langs tíma og verður eðlilega að lúta formfestu og fastri stefnu í meginatriðum. Ekki er ég að tala á móti breytingum, að sjálfsögðu ekki, en grundvallarbreytingar í þessum efnum verða að nást fram með bærilegri sátt.

Þetta hefur því miður ekki verið raunin og eins og ég sagði áðan var fyrirséð að um það frumvarp sem hér er til umræðu yrði djúpstæður ágreiningur. Það er málefnalegur djúpstæður ágreiningur eins og hér hefur ágætlega verið rökstutt. Samt skal það þvingað í gegn á lokadögum þingsins, og gríðarlega mikilvægum málum eins og sjá má af málalista dagskrárinnar í dag er fórnað til að koma fram þessu máli sem ekki er brýnt. Verði sú raunin að næstu ríkisstjórnir vilji krukka í þetta fer sama hringekja af stað að frumkvæði nýrrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnir eru ekki eilífar, þær koma og fara.

Ég nefndi fyrr í ræðu minni að með frumvarpinu sé löggjafarvald flutt til framkvæmdarvaldsins, þ.e. forsætisráðherra. Það hefur verið ítarlega rökstutt, bæði varðandi heiti ráðuneyta og verkefnaflutning. Forsætisráðherra fær meiri völd, oddvitaræðið er styrkt. Málum verður ekki skipað með lögum með sama hætti og nú er. Að mínu mati er það alls ekki í anda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstaðna og ályktana þingmannanefndarinnar. Þetta er að mínu mati öfug þróun og gengur gegn niðurstöðum þessara nefnda um formfestu og rýrir enn hlut löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er á sama tíma og allir hv. þingmenn sem ég hef heyrt tala á þinginu kalla eftir auknu sjálfstæði þingsins, (BJJ: Rétt.) nákvæmlega á sama tíma, að því sé ekki stýrt af framkvæmdarvaldinu eins og niðurröðun dagskrár í dag og fleirsinnis bendir sterklega til. Hver varð niðurstaða þingmannanefndarinnar um stjórnsýsluna? Á bls. 11 í skýrslu þingmannanefndarinnar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.“

Síðar segir í þessum ályktunum um stjórnsýsluna, með leyfi herra forseta:

„Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.“

Það vald sem fært er til hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma með þessu frumvarpi er óásættanlegt. Frumvarpið felur ekki í sér aukna formfestu og stöðugleika hvað varðar valdframsal til forsætisráðherra. Það eflir oddvitaræðið sem aðgreint er með faglegum og sterkum rökum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sem þingmannanefndin tók einhuga undir. Hún var sammála um þetta. Það sem verra er er að frumvarpið opnar fyrir geðþóttaákvarðanir þótt ég ætli ekki núverandi hæstv. forsætisráðherra það.

Við þetta vil ég bæta því að umboðsmaður Alþingis skilar Alþingi á ári hverju skýrslu um störf sín. Í hverri einustu skýrslu sem ég hef kynnt mér frá því að ég settist á þing, og reyndar fyrr, hefur umboðsmaðurinn ítrekað kallað eftir aukinni festu og stöðugleika í stjórnsýslunni, þar með talið í ráðuneytunum. Ég vil ekki gera hér að umtalsefni margar ræður þingmanna sem hafa verið upp til hópa málefnalegar að mínu mati og komið inn á kjarna þessa máls en ég verð þó að vísa til þess að ég tek heils hugar undir ræður hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þar sem hún fjallaði um niðurstöður þingmannanefndarinnar og ekki síður þá gagnrýni sem hún setti fram á núverandi hæstv. forsætisráðherra. Verum minnug þess að Alþingi setti á stofn rannsóknarnefnd Alþingis og það var Alþingi sem ákvað að setja á fót sérstaka þingmannanefnd til að lesa úr niðurstöðum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og gefa álit sitt á þeim sem þingmannanefndin gerði.

Á sama tíma og það gerist og skýrslan kemur út skipar hæstv. forsætisráðherra sérstakan starfshóp sem hún fól hlutverk sem skaraðist um ýmis atriði við hlutverk þingmannanefndarinnar. (VigH: Rétt.) Þetta voru afskipti af löggjafarvaldinu. Þetta vakti kurr meðal ýmissa í þingmannanefndinni og gerði henni um margt erfiðara fyrir. Þetta var inngrip í sjálfstæði Alþingis og afskipti framkvæmdarvaldsins af því sem kom þá mjög berlega í ljós.

Ég hef gert grein fyrir ákveðnum þáttum í þessu frumvarpi sem eru mér þyrnir í augum, þ.e. valdframsalinu og auknu valdi framkvæmdarvaldsins. Það er þó ekki svo að ég finni þessu frumvarpi allt til foráttu, þvert á móti. Það eru ýmis ágætisnýmæli í því og margt vel unnið en ég hygg að þessi þáttur um valdframsalið sé afar óheppilegur, svo ekki sé meira sagt, og í þversögn við vilja allra hv. þingmanna sem ég hef heyrt tala um að styrkja sjálfstæði Alþingis eins og ég hef sagt áður.

Í upphafi ræðu minnar talaði ég um undarlega forgangsröðun hvað þetta mál varðar og ég hef sagt að hæstv. forsætisráðherra keyri málið áfram á kostnað brýnna mála sem bíða úrlausnar. Nefndi ég þar gjaldeyrishöftin og þann fjölda annarra mála sem er á dagskrá þingsins. Fjöldi hv. þingmanna hefur réttilega gagnrýnt þessa forgangsröðun og rökstutt vandlega. Ég get tekið undir þá gagnrýni. Ég ætla þó að nefna mál sem mér brennur á hjarta og hefur valdið mér þyngstum áhyggjum í stjórnmálalífi mínu og einkalífi, mál sem átti að vera forgangsmál okkar númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og áfram, auðvitað baráttan gegn atvinnuleysinu, baráttan gegn því mikla böli og þeim afleiðingum sem því fylgja.

Þúsundir Íslendinga eru atvinnulausar. Þúsundir Íslendinga hafa flutt af landi brott og leitað vinnu annars staðar. Það eru líka þúsundir Íslendinga, og það er sjaldnar nefnt, sem eru án atvinnu, eru vinnufærar en sækja ekki um og taka ekki atvinnuleysisbætur. Það er stór hópur líka.

Í þessari ömurlegu stöðu sem mér finnst, í þessu ömurlega atvinnuleysi, er ESB-umsóknin forgangsmál ríkisstjórnarinnar og afleidd mál beint og óbeint tengd umsókninni, m.a. mikil fjölgun innleiðinga ESB-tilskipana. (VigH: Rétt.) Öll ráðuneytin eru á kafi í þessari umsóknarvinnu á kostnað skylduverkanna og hundruðum milljóna er varið til umsóknarinnar. Þegar ráðuneytin eru bundin á klafa þessarar umsóknar og það hriktir í stoðum þeirra sumra vegna mikils vinnuálags á svo í ofanálag að hræra í Stjórnarráðinu og skapa hugsanlega óvissu meðal starfsmanna. Svo sannarlega færi betur á því að orka ríkisstjórnar og ráðuneyta færi í að vinna bug á alvarlegu atvinnuleysi og brottflutningi af landinu. Tíma þingsins væri betur varið í að leysa alvarlegan vanda atvinnuleysis og það alvarlega böl sem því fylgir.

Hæstv. forsætisráðherra hefur, eins og ég sagði áðan, stefnt störfum Alþingis í þá gíslingu sem þingið er í nú og það án þess að hafa stuðning allra ráðherra og jafnvel stjórnarliða að baki sér. Eins og ég sagði áðan var fullkomlega fyrirséð að þetta yrði raunin sem hefur orðið í dag, nákvæmlega með sama hætti og það var fyrirséð með stóra fiskveiðistjórnarfrumvarpið uns því var breytt og lagt fram í maí í vor. Það var fyrirséð að það mundi valda verulegum deilum og þá var ekki reynt til þrautar með sættir.

Mér hefur stundum orðið hugsað til ævisögu séra Árna Þórarinssonar í þessu sambandi þegar ég hugleiði þessi vinnubrögð. Hann sagði um sveitunga sína á Snæfellsnesi, frændur mína, að þeir tækju ekki frið þegar góður ófriður væri í boði. Þessi setning úr þeirri ágætu ævisögu hefur oft hvarflað að mér. Það er afar brýnt verkefni þingsins að koma í veg fyrir að það lendi í þessari stöðu í framtíðinni og það kallar á meira sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá er það sérstaklega brýnt í málum sem varða grundvöll stjórnskipunar og stjórnsýslu, kosningar, kjördæmaskipan og fleira. Það er verkefni okkar þingmanna að finna leiðir til að við lendum ekki í þessari stöðu aftur og aftur og svo sannarlega gildir það sama og miklum mun fremur um ríkisstjórnir á hverjum tíma. Virðing Alþingis er í húfi, herra forseti.