139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég bað um það fyrr í kvöld að hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson yrði viðstaddur umræðuna og tæki þátt í henni. Hann er vaskur maður og ég þekki hann að því að hafa getað vakað lengi og ég trúi því ekki að hann geti það ekki lengur. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra verði kallaður til fundarins vegna þess að hann hefur einhverjar efasemdir um þetta frumvarp. (BJJ: Já, já.) Ég vildi gjarnan heyra þær efasemdir (BJJ: Ég líka.) vegna þess að sá hæstv. ráðherra er hluti af ríkisstjórn Íslands. Þetta er ríkisstjórnarfrumvarp sem við ræðum og það er mjög mikilvægt að vita hvort það sé einhver stuðningur á bak við það. Ef það er ekki stuðningur þurfum við ekkert að ræða það. Þar fyrir utan hefur komið í ljós að sá grundvöllur frumvarpsins — og það ætla ég að ræða um í næstu ræðu, herra forseti — að það byggi á skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar er ekki til staðar eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Frumvarpið byggir á misskilningi og það er ekki stuðningur á bak við það. (Gripið fram í.)