139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er miður að hæstv. forseti gaf ekki svar um hvort til stæði að kalla fund saman með þingflokksformönnum (Gripið fram í.) vegna þess að hér hefur ekkert samráð verið um dagskrána. Við sjáum að alltaf fjölgar á dagskránni og því vekur það óneitanlega athygli mína að eitt mál stendur alltaf út af og það er þingsályktunartillaga 18 þingmanna, m.a. þeirrar sem hér stendur, um hvort heimila skuli staðgöngumæðrun á Íslandi.

Fyrir upphaf septemberþingsins setti hæstv. forseti ákveðin skilyrði um hvaða mál kæmust á dagskrá. Ég vil líka upplýsa um að hér var gert heiðursmannasamkomulag í vor við lok þingstarfa um að þetta mál færi á dagskrá og yrði afgreitt, yrði það afgreitt út úr nefnd. (Gripið fram í: Hvaða heiðursmenn voru það?) Málið hefur verið afgreitt úr nefndinni, um það var fín umfjöllun og (Forseti hringir.) umræða sem leiddi til þess að málið afgreitt með meiri hluta og lagt til að það yrði samþykkt. Enn er málið ekki komið á dagskrá. Ég spyr, frú forseti: Hvað veldur því? Á að taka mál (Forseti hringir.) sem er frekar lítið en stórt fyrir marga einstaklinga, í gíslingu út af samningum um lok þingstarfa? (Forseti hringir.) Ætlar forseti ekki að standa við það heiðursmannasamkomulag sem hún var aðili að?