139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:13]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það hefur verið sagt um efnahagshrun að menn læri aldrei af síðasta hruni. Það er langt á milli hrunanna og núna fyrir 2008 vorum við búin að gleyma heimskreppunni miklu. Í hugum margra var óhugsandi að það sama gæti komið fyrir okkur og gerðist þá.

Það er erfitt að læra af einhverju sem gerðist fyrir 80, 100 eða 200 árum en það er lágmark að reyna að læra af því sem hefur gerst á síðustu árum. Byr og SpKef eru því miður ekki einu fjármálafyrirtækin sem hafa farið á hausinn á Íslandi síðustu þrjú árin. Við eigum rannsóknarskýrslu í níu bindum um hvernig hrunið varð, hvernig fyrirtækin fóru á hausinn, hvað gerðist og hvernig þau voru reist upp. Við verðum að læra af þeirri reynslu.

Í skýrslunni kemur fram að það vantaði alla formfestu og það er kannski skiljanlegt í hruninu sjálfu en það vantaði formfestu í stjórnsýsluna. Það er nauðsynlegt að hafa skýrar leikreglur. Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að hafa þetta og við verðum að vinna faglega.

Allt um gjaldþrot Byrs og SpKef, hvernig þau eru reist upp aftur og öll sú súpa, hefur mér fundist eins og rassvasabókhald hjá ráðherranum. Við stofnuðum Bankasýslu ríkisins, það voru ekki allir sammála um að það skyldi gera, og hún er hugsuð fyrir fallin fjármálafyrirtæki til að halda utan um eignarhlut ríkisins. Það er ekki ætlast til þess að fjármálaráðherra sé með þetta á sinni könnu. Við verðum að læra af fortíðinni. Þótt við getum ekki lært af því sem gerðist fyrir 100 árum hljótum við að geta lært af því sem við höfum sjálf upplifað hér síðustu þrjú árin.