139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þingmönnum ætti öllum að vera kunnugt liggur það alveg fyrir nú að sú mynd sem birtist í ársreikningum stóru íslensku bankanna var stórkostlega fegruð, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, enda fóru þeir á hausinn. Ársreikningar Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur virðast ekkert frábrugðnir ársreikningum Landsbankans, Glitnis eða Kaupþings að því leyti. Var það ekki svo að Alþingi setti á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á því hvernig þessi ósköp gátu gerst? Nú hefur Alþingi sömuleiðis ákveðið að setja á fót rannsóknarnefnd til að rannsaka það hvernig þessi sömu ósköp gátu gerst í tilviki sparisjóðanna.

Byr og Sparisjóður Keflavíkur sem sparisjóðir voru starfandi fjármálastofnanir með starfsleyfi. Þeir sóttu á vormánuðum 2009 um eiginfjárframlag á grundvelli neyðarlaga. Það mál var sett í algjörlega eðlilegan farveg og byrjað á því að óska eftir hlutlausri úttekt á eignasafninu til að undirbúa að þeim yrði lagt lið með eiginfjárframlögum, væru fyrir því forsendur, til þess að koma þeim fyrir vind. Síðan kemur í ljós að staðan er verri eins og hér hefur verið farið yfir.

Viðræður voru reyndar við kröfuhafa um endurfjármögnun stofnananna með sama hætti og í tilviki stóru bankanna. Viðræðurnar leiddu ekki til niðurstöðu þó að vissulega hafi Byr hf. að uppistöðu til verið fjármagnaður með því að kröfuhafar þar breyttu kröfum í eigið fé (Gripið fram í.) og eru síðan seljendur að stærstum hluta til á móti hinum litla hlut ríkisins.

Nýju stofnanirnar störfuðu á nákvæmlega sama grunni, á grundvelli upphafsfjármögnunar, og stóru bankarnir gerðu eiginlega allt árið 2009, frá því í október 2008 (Gripið fram í.) og fram eftir árinu 2009, með lágmarks eigið fé sem lagt var fram meðan unnið var að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra og endurfjármögnun með nákvæmlega sama hætti, með 900 millj. kr. framlagi. Landsbankinn, Íslandsbanki og (Forseti hringir.) Arion banki, bankar sem síðan fengu þau nöfn, störfuðu á nákvæmlega sömu forsendum með heimild frá Fjármálaeftirlitinu (Forseti hringir.) stærstan hluta ársins 2009. Þetta veit hv. þingmaður.

Það er rétt hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur að það verður óskað eftir heimild frá Alþingi (Forseti hringir.) eins og ég hef þegar upplýst, lagastoðin fyrir þessum aðgerðum er ótvíræð 1. gr. neyðarlaganna.