139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem við hv. þingmenn höfum óskað eftir því að hæstv. ráðherrar væru viðstaddir þessa umræðu. Ég held að hæstv. forsætisráðherra hafi opinberað hér að hún hlustaði ekki á ræðu mína áðan. Ég fór akkúrat yfir það að sum ákvæði í frumvarpinu horfðu til framfara og væru til bóta. Hæstv. forsætisráðherra ákvað að hlusta ekki á þann hluta ræðu minnar.

Útgangspunktur minn er sá að það er verið að auka valdheimildir forsætisráðherra á kostnað Alþingis. Það kom fram hjá formanni þingmannanefndarinnar sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að þetta er gjörsamlega í andstöðu við þann anda sem ríkti í því starfi. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé ósammála mati formanns nefndarinnar um það.

Svo vil ég að hæstv. forsætisráðherra svari því hvað henni þyki um orðbragð stjórnarliða við þessa umræðu, hvort það sé til þess fallið að auka veg og virðingu þingsins.