139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alvarlegur hlutur að hæstv. forsætisráðherra skuli ráða ríkjum í Alþingishúsinu. Mér þykir nóg að stjórn hennar nái einungis til Stjórnarráðsins.

Nú liggur fyrir þetta frumvarp til að færa enn frekari völd úr þessu húsi yfir í Stjórnarráðið. Það er alvarlegur hlutur. Það hefur komið fram á fundum formanna þingflokkanna, sem hafa ekki fundað síðan á mánudaginn, að hér er ekkert plan, (Gripið fram í.) hér er ekkert skipulag. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir fundaði áðan, ég vísaði í það, en það er ekkert plan eftir þann fund sem mér finnst bagalegt. Hér eru landsbyggðarþingmenn og hér eru þingmenn úr Reykjavík. Ég ætla að benda hæstv. forseta á að það eru til dæmis réttir á morgun og laugardaginn sem þingmenn verða að láta sjá sig í. Það er ekki verið að tala um að hlé verði á þingstörfum eða samkomulag um eitt eða neitt þannig að ég kalla eftir því, frú forseti, að við fáum skýrar (Forseti hringir.) línur um hvernig störfunum verði hagað hér. Þetta átti að vera síðasti þingdagurinn. Hvernig er staðan?