139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er þegar mikið stundað á Alþingi að draga fólk í dilka. Af því að hv. þingmaður nefndi réttir dettur mér í hug að hér hefur meira að segja verið gengið svo langt að fólk er dregið í dilka eftir heilbrigði þess. Hv. þm. Mörður Árnason lætur ekki við það sitja að tala um geðklofa, hvort við erum með pólitískan geðklofa eða eitthvað annað. Mig langar að biðja hæstv. forseta að fara yfir þær leiðbeiningar sem eru um fundarstjórn forseta á þingfundum og ég spyr hvort það sé virkilega við hæfi að þingmenn noti það orðbragð sem hv. þm. Mörður Árnason notar. Að mínu viti talar hann niður til þeirra sem eiga við þennan sjúkdóm að stríða.

Framsóknarmenn hrökkva ekkert við þó að þeir séu kallaðir öllum illum nöfnum eða kenndir við sjúkdóma og jafnvel dýr ef því er að skipta. Það fólk sem á við sjúkdóma að etja á hins vegar ekki skilið að það sé dregið fram með háði eða með einhverjum þeim hætti sem hv. þingmaður stundar í þingsal.