139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég stóð í þeirri meiningu að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra ætluðu að vera viðstödd þessa umræðu. Ég hinkra bara þangað til þau mæta í salinn og vona að klukkan verði stoppuð á meðan.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Forseti getur upplýst að ráðherrar sitja í hliðarsölum eins og margir aðrir þingmenn og hlusta væntanlega á ræðu hv. þingmanns.)

Mér fyndist betri bragur á því, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherrar væru í þingsalnum. Það er mikil prýði að þeim báðum. Maður getur haft áhyggjur af því að þau missi af einhverju í ræðunni ef þau eru mikið að þvælast í hliðarherbergjum. Það er afskaplega mikilvægt að hæstv ráðherrar taki þátt í þessari umræðu og það er líka mikilvægt að þeir svari spurningum sem til þeirra er beint. Til dæmis spurði hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir að því hvort hæstv. ráðherra væri búinn að meta þann kostnaðarauka sem verður af því að borga aðstoðarmönnunum og líka af þessari opnun sem ég hef ekki áttað mig á en er búið að staðfesta, sem er að nú er hægt að hafa fleiri en einn ráðherra yfir hverju ráðuneyti. Nú kynni einhver að spyrja, virðulegi forseti: Er það ekki eitthvað sem aldrei mun verða?

Virðulegi forseti. Við erum nú búin að sjá stjórnkerfisbreytingar frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Þær hafa fyrst og fremst tekið mið af allra handa hrossakaupum og pólitískum æfingum. Menn ættu því ekki að láta sér koma á óvart þó að hér yrðu tveir, þrír hæstv. umhverfisráðherrar áður en yfir lýkur eða eitthvað álíka, ef þetta mál nær fram að ganga. Það er ekkert ólíklegt að menn skelli inn einum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra aukalega svona til að sjá til þess að hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, láti betur að stjórn.

Þegar við skoðum frumvarpið, og nú skiptir máli að við erum bara að tala um lög og sem betur fer er það nú þannig að þeir sem gegna embætti núna verða þar ekki endalaust, það er eitthvað sem er fullkomlega öruggt, og við erum ekki að sníða lög í kringum þessa ríkisstjórn. Hins vegar er afskaplega gott, og nú reyni ég að vera jákvæður út í hæstv. ríkisstjórn, að hafa hæstv. ríkisstjórn því að þá getum við séð hvernig hægt er að misnota það sem er til staðar. Ef við skoðum störf núverandi ríkisstjórnar og hæstv. forsætisráðherra er alveg ljóst að hún hefur farið á skjön við flest sem við erum sammála um að megi betur fara. Þá er ég að vísa til þess að hér hafa hv. þingmenn, og ekki bara hv. þingmenn heldur hefur það verið almenn umræða í þjóðfélaginu, verið sammála um ákveðna hluti sem við eigum að stefna að. Hverjir eru þeir, virðulegi forseti? Jú, það er að styrkja þingið, löggjafarsamkomuna, ekki fyrir þingmenn heldur fyrir þjóðina, þannig að þegar þjóðin kýs í alþingiskosningum geti hún treyst því að þeir aðilar sem hún kýs geti haft eftirlit með framkvæmdarvaldinu og komið í veg fyrir ýmislegt sem okkur hefur þótt miður á undanförnum árum og áratugum. En hér fara menn þvert á það upplegg, virðulegi forseti.

Ég vek athygli á 4. gr. þar sem verið er að virkja frekar en nú er, og hefur ekki verið nýtt mikið, heimild forsætisráðherra til að skera úr um undir hvaða ráðuneyti stjórnarmálefni heyrir ef upp kemur vafi eða ágreiningur. Einnig ef menn skoða 8. gr. þá segir svo, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra ber að gæta þess að verkaskipting á milli ráðherra, sbr. 4. gr., sé eins skýr og kostur er. Ráðherrar skulu leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarast. Forsætisráðherra skal beita sér fyrir því að stefna og aðgerðir ráðherra á einstökum sviðum séu samhæfðar ef á þarf að halda.“

Þetta hljómar frekar vel þegar menn lesa þetta í fyrsta skipti. En hvað þýðir þetta? Segjum bara: Hvað þýðir þetta í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur? Þetta þýðir það að hæstv. forsætisráðherra getur í nafni samhæfingar snúið niður ráðherra þannig að þeir fari ekki eftir eigin sannfæringu og betri vitund, heldur vilja hæstv. núverandi forsætisráðherra. Það þýðir það. Þetta er tæki fyrir hæstv. forsætisráðherra til að snúa niður ráðherra.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega svo gott þegar við erum með núverandi hæstv. forsætisráðherra að þá sjáum við hvernig hægt er að beita slíkum meðulum. Er einhver búinn að gleyma því hvað gerðist t.d. þegar hér voru greidd atkvæði um ESB-aðildarumsóknina? Ég man eftir því og við sáum það öll sem vorum hér hvernig það kom nýjum þingmanni fyrir sjónir að verða vitni að þessum vinnubrögðum og verða fyrir barðinu á slíkum vinnubrögðum. Þá er ég að tala sérstaklega um hv. þm. Ásmund Einar Daðason. Nú er oft talað um oddvitaræði og þá er vísað til þess að oddviti í flokki fari mikinn og taki lítið tillit og berji menn til hlýðni en í þessu tilliti fór oddviti annars stjórnarflokksins yfir í hinn flokkinn líka.

Hér ætlar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir að fela hæstv. núverandi forsætisráðherra, og hún veit manna best hvernig vinnubrögðin eru á þeim bæ, aukið vald til að ná fram vilja sínum við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Ég veit að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er sanngjörn manneskja og vill vel og ég hvet hana til að hugsa þetta mál. Engin manneskja eða fáar vita betur hvað gerðist bak við tjöldin. Þetta var að vísu ekkert rosalega mikið bak við tjöldin, þetta var allt dregið upp því að sem betur fer fékk t.d. maður eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason algerlega nóg. Það var brotið algerlega gegn réttlætisvitund hans og hann hefur sagt frá því hvað þarna gerðist. Hann er genginn úr þingflokki Vinstri grænna, einnig hv. þm. Atli Gíslason vegna þessara vinnubragða, sem menn hafa í orði kveðnu, forustumenn þessarar ríkisstjórnar, gagnrýnt hvað eftir annað.

Hvernig töluðu þessir menn um stjórnmálaleiðtogana Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson? Hvernig var talað um þá? Ég held að það hafi staðið upp úr hverjum einasta álitsgjafa ríkisstjórnarinnar, sem menn vita núna að eru álitsgjafar ríkisstjórnarinnar, einhverjir héldu kannski í einhvern tíma að þeir væru eitthvað annað, þeir áttu ekki til orð að lýsa því. Vanþóknunin var slík ef þessir þáverandi forustumenn ríkisstjórnarinnar gerðu örlítið brot af því sem við höfum horft á í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon líta svo á að ekkert skipti neinu máli nema þeirra vilji. Ef einhver velkist í vafa um það hvet ég þann til að skoða það sem við vorum að ræða utan dagskrár áðan. Þá er ég að vísa í málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur. Ég ætla ekki að fara neitt langt aftur, ég ætla bara að fara í daginn í dag. En það liggur að fyrir að eftir hrun tekur fjármálaráðherra sér það vald, þvert á lögin, að halda utan um ákveðnar fjármálastofnanir. Hann lýsir því yfir að allt sé komið í mjög gott lag, ekki þurfi að hafa neinar áhyggjur, það verði ekki fall á fleiri fjármálastofnunum. Hann sér til þess að þau séu í rekstri án þess að uppfylla lagaskilyrði og við horfum núna á gríðarlegt tjón, m.a. vegna framgöngu hæstv. ráðherra, sem tók fram fyrir þá stofnun sem hann setti sjálfur sem átti að fara með málefni viðkomandi fjármálastofnana og hann kemur hér upp og segir að þetta sé allt öðrum kenna en honum sjálfum.

Þessi hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon fór hér mikinn og beitti sér fyrir því að setja ætti fyrrverandi ráðherra síðustu ríkisstjórnar í fangelsi vegna þess að þeir sáu ekki hrunið fyrir og það hefur ekki enn verið útskýrt hvað þeir áttu að gera betur en þeir gerðu. En þá var enginn vafi í huga hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar að þessir aðilar bæru ábyrgð á þessu öllu saman og miklu meira en pólitíska ábyrgð, þeir áttu að bera þannig ábyrgð að afgreiða ætti málið eins og um sakamál væri að ræða.

Virðulegi forseti. Maður lítur á þetta frumvarp og bægslaganginn við að koma því í gegn, ekki bara með því að lesa textann heldur hlýtur maður að skoða hvað liggi á bak við. Þessi septemberstubbur sem menn voru sammála um að setja í þingsköpin og miðaði að því — ég veit að allir eru búnir að gleyma því, það er orðið svo langt síðan — að ef sú staða kæmi upp á vorin þegar þingstörfum væri að ljúka og þá var gert ráð fyrir að þeim væri lokið samkvæmt áætlun, að þá hefðu menn tækifæri til að fara betur yfir ákveðin mál ef menn væru komnir í tímaþröng. Það væri hægt að taka kannski eitt, tvö mál sem ekki næðist að klára á vorin, vinna þau yfir sumarið og svo kæmu þingmenn saman til að klára verkið.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar, virðulegi forseti, er þetta orðið eitthvað allt annað. Fyrirgefðu, virðulegi forseti, ég á erfitt með að útskýra hvað þetta nákvæmlega er vegna þess að hér er fullkomið stjórnleysi og það er mjög erfitt að átta sig á hvaða hlutverk hæstv. ríkisstjórn ætlar þessu þingi. Þó er ljóst að það á að keyra þetta frumvarp í gegn. Er það þannig að þau vilji breyta ráðuneytum meira en gert hefur verið? Hefur verið eitthvað sérstaklega erfitt að breyta ráðuneytum? Skoðum það, virðulegi forseti. Við skulum fara til ársins 2007. Þá urðu nokkrar breytingar. Ég var á þingi þá og í þeirri ríkisstjórn og ég man ekki til þess að það hafi verið neitt miklar deilur um það mál. Ég held að það hafi verið unnið með mjög lýðræðislegum hætti og bæði stjórn og stjórnarandstaða komu með sín sjónarmið í því. Þá var það þannig að menn tóku heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið sem menn töldu vera of stórt og það færi ekki saman að hafa tryggingamálin og heilbrigðismálin í einu ráðuneyti. Tryggingamálin voru því færð undir félagsmálaráðuneytið vegna þess að þeir málaflokkar ættu betur saman. Á sama hátt voru sveitarstjórnarmálin færð úr félagsmálaráðuneytinu af því að þau þóttu ekki heima þar og þau voru sett undir samgönguráðuneytið og síðan, ef ég man rétt, voru ferðamálin færð úr sveitarstjórnarráðuneytinu af því að þau ættu betur heima í iðnaðarráðuneyti.

Að auki var svo eftir að þessi ríkisstjórn tók við ákveðið að sameina aftur heilbrigðis- og tryggingamálin og bæta félagsmálunum við og þar er nú komið langstærsta ráðuneytið sem heitir velferðarráðuneyti. Rökin fyrir því að þau voru sett í eitt ráðuneyti voru þau að einhvern veginn lásu menn það út úr rannsóknarskýrslunni að það væri sérstök krafa að sameina ráðuneyti af því að þau væru of lítil. Til að ná því fram ákvað ríkisstjórnin að sameina tvö langstærstu ráðuneytin í eitt en litlu ráðuneytin eins og t.d. umhverfisráðuneytið var áfram eitt og stakt. Síðan voru dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sett inn í innanríkisráðuneyti, og viðskiptamálin voru sett inn í efnahagsráðuneyti. Í millitíðinni, frú forseti, hafði verið breytt um nöfn á ráðuneytum þannig að um tíma hét það sem var dóms- og kirkjumálaráðuneyti dóms- og mannréttindaráðuneyti og menntamálaráðuneyti var nefnt mennta- og menningarmálaráðuneyti og einhverjar fleiri nafnabreytingar voru þarna á ferðinni. Þær höfðu það að markmiði — ég veit raunar ekki hvert markmiðið var — því að það var alveg ljóst á þeim tíma að það átti að fara í fleiri breytingar, en kannski var þetta til þess að auka atvinnu hjá þeim sem hafa vinnu af því að breyta um bréfsefni og búa til það sem kallað er á vondri íslensku „lógó“ á ráðuneyti eða eitthvað slíkt.

Ég spurðist fyrir um kostnaðinn af þessum æfingum. Kostnaðurinn valt á milljónum bara við að breyta um ráðuneyti nokkrum sinnum, sömu ráðuneytunum. Hvað sem því líður getur enginn haldið því fram að þetta hafi tekið sérstaklega langan tíma eða væri eitthvað sem væri óyfirstíganlegt. Því hlýtur maður að spyrja, virðulegi forseti, úr því að það er ekki málið: Hvað liggur hér til grundvallar? Ég held að það sem liggi til grundvallar sé fyrst og fremst það að hæstv. forsætisráðherra gerir kröfu um að fá meiri völd til að koma sínum skoðunum, sem eru eins og þær geta verið, í gegn. Hér er hæstv. ráðherra Jón Bjarnason — það er enginn vafi á að þetta frumvarp er lagt fram til að hafa meiri stjórn á hæstv. ráðherra (Gripið fram í: Hann er nú bestur.) því að hann hefur þótt vera frekar erfiður í taumi þegar kemur að málum og sérstaklega þegar kemur að Evrópumálunum. Þegar þetta frumvarp verður samþykkt er hægt að setja fleiri ráðherra inn í ráðuneyti hæstv. ráðherra, þannig að við gætum kannski séð hv. þm. Árna Þór Sigurðsson verða annan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og/eða hv. þm. Helga Hjörvar, hann gæti líka orðið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við hlið þess sem nú er. Kannski finnst einhverjum sem hlustar á þetta þetta vera kjánalegt og geti ekki verið en þetta hefur bara verið staðfest í umræðunni. Ef þetta frumvarp verður samþykkt verður hægt að hafa fleiri en einn ráðherra í hverju ráðuneyti. Hví skyldu menn setja slíkt inn nema það væri einhver hugsun á bak við það? Þetta var að vísu ekki kynnt þannig, þetta hefur komið fram í umræðunni, umræðunni sem stjórnarliðar kvarta svo mikið undan. Kannski sýnir þetta betur en margt annað hve mikilvægt er að fara vel yfir mál. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég get alls ekki sætt mig við þetta mál að nú getur forsætisráðherra farið að setja aðra ráðherra inn í ráðuneyti þess sem fyrir er honum til höfuðs. Það er enginn vafi í mínum huga, virðulegi forseti, að hæstv. núverandi forsætisráðherra gæti svo sannarlega ekki bara fengið þá hugmynd heldur líka framkvæmt hugmyndina.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta liggi til grundvallar, að hæstv. forsætisráðherra vill fá betri tæki til að snúa sitt fólk niður og ég held að eitt mál sé sérstaklega stórt í því samhengi sem eru Evrópumálin. Við þekkjum að strúktúrinn í Evrópusambandinu er ekki alveg sambærilegur við það sem gerist í íslenskri stjórnsýslu, og þá er sérstaklega vísað í landbúnaðarmálin og byggðamálin, og það getur verið miklu meira en þægilegt fyrir hæstv. forsætisráðherra að geta tekið eitthvað af þeim málaflokkum og fært þá eitthvert annað en þar sem þeir eru núna svo dæmi sé tekið. Almennt séð held ég að það sé bara þægilegt fyrir hæstv. forsætisráðherra að geta haft þetta vald, að geta tekið mál undan einhverjum ráðherra, ef þannig má að orði komast, fært það yfir og/eða skellt öðrum ráðherra inn í ráðuneyti viðkomandi ráðherra.

Það liggur alveg fyrir að það sem ég er að nefna verður mögulegt ef frumvarpið verður samþykkt. Nú geta menn haft allar skoðanir á Evrópumálunum. Menn geta til dæmis haft allar skoðanir á áherslum hæstv. núverandi ráðherra í landbúnaðarmálum. Ég er ekki sammála hæstv. núverandi ráðherra í því hvernig hann beitir sér í landbúnaðarmálunum, því síður í sjávarútvegsmálunum. En við komumst að sömu niðurstöðu þegar kemur að Evrópumálunum. Það er alveg aukaatriði.

Málið snýst um þetta: Er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra, sama hver hann er, hafi þessi völd? Er það eðlilegt? Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegt skulu hinir sömu aldrei koma hingað upp og segja að þeir vilji efla þingið, þeir skulu aldrei gera það því að þá eru þeir búnir að fara þvert á það markmið. Þeir hinir sömu skulu aldrei koma hingað upp eða fara annað og tala gegn oddvitaræði eins og það hefur verið kallað, þeir skulu aldrei gera það vegna þess að menn ætla hér að fara þvert gegn því markmiði að minnka hættuna á slíku.

Við hljótum líka að spyrja okkur hver séu raunveruleg áhersluatriði hv. þingmanna sem nú eru í stjórnarmeirihlutanum. Á þessum tímum erum við að ræða þetta. Með góðu eða illu ætlar stjórnarmeirihlutinn að minnka vald þingsins, með góðu eða illu skal það markmið nást, með góðu eða illu skal auka vald hæstv. forsætisráðherra þannig að hún geti komið málum sínum í gegn innan raða ríkisstjórnarinnar, sinnar eigin ríkisstjórnar. Þetta er áhersluatriðið. Allt annað er aukaatriði, meira að segja þessi 46 mál sem ég hvet alla til að kynna sér.

Ég hvet fólk til að fara á heimasíðu Alþingis og lesa dagskrá þingsins. Þegar viðkomandi er búinn að lesa dagskrána þá skal hann spyrja sig ákveðinna spurninga. Hann skal spyrja sig þeirrar spurningar hvaða mál hér inni hjálpi íslenskum almenningi og íslensku efnahagslífi. Hvaða mál? Eru það upplýsingalögin sem hafa það að markmiði að skerða rétt almennings til upplýsinga? Er það fullnusta refsinga? Eru það ársreikningar? Eru það áfengislögin, skýrara bann við auglýsingum? Er það Þjóðminjasafnið, safnalögin, Landsbókasafnið? Er það fullgilding Árósasamningsins?

Það er að vísu eitt mál hérna sem mun nýtast almenningi og er mjög gott mál og það eru húsnæðismálin. Það er mál, ef ég skil rétt, sem gengur út á að opna fyrir heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán. En, virðulegi forseti, þar með er það eiginlega upptalið. En jafngóð mál og það eru að vera með samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna eða samvinnu milli þeirra ríkja um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum, eða ákvörðun EES-nefndarinnar, nr. 85/2010, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn — og hér er alveg endalaust af þessum ágætu EES-tilskipunum — þá skipta fæstar af þeim tilskipunum nokkru máli fyrir íslenskan almenning og margar eru stórhættulegar. Allar eiga þær það sameiginlegt að út af þeirri verkstjórn sem hér hefur verið, út af forgangsatriðum ríkisstjórnarinnar, eru allar líkur á því að allt þetta verði afgreitt án þess að farið verði vel yfir það. Þar erum við komin að því hvað ríkisstjórnin meinar raunverulega þegar hún er að tala um bætta starfshætti þingsins.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon fór mikinn fyrir nokkrum árum, áður en hrunið varð, áður en skýrslurnar komu, áður en allir þingmenn greiddu sérstaklega atkvæði um það, allir sem einn, að bæta vinnulag í þinginu, og talaði um mikilvægi þess að þegar verið væri að breyta Stjórnarráðinu ætti að gera það í samvinnu og sátt. Ekki í samvinnu og sátt innan ríkisstjórnar, nei, í samvinnu og sátt meðal hv. þingmanna. Sá hinn sami beitir sér núna fyrir því að minnka vald þingsins og auka vald hæstv. forsætisráðherra.

Virðulegi forseti. Bægslagangurinn er slíkur, eins og ég nefndi áðan, að menn vita ekki einu sinni hvað það kostar að fjölga aðstoðarmönnum um hvorki meira né minna en 23. Því síður vita menn hvað kostar að opna fyrir þá heimild, enda kannski erfitt að áætla það nema menn gætu fengið upp úr hæstv. ráðherra hvað hún ætlar að koma mörgum aukaráðherrum fyrir í þeim ráðuneytum sem fyrir eru. En við vitum ekkert hvað þessar æfingar allar kosta. Það hefur ekki verið tilgreint. Á meðan við ræðum þetta á þennan hátt berast hér upplýsingar um eitthvað sem mikil umræða er um í þjóðfélaginu, einfaldlega um það hvernig uppgjörið er á gömlu og nýju bönkunum, hvernig það var. Loksins er komið svar sem snýr að Landsbankanum og væntanlega má heimfæra það yfir á fleiri banka en það voru afslættir á gömlu lánunum yfir í nýju bankana, á lánum einstaklinga um 33% og 50% hjá fyrirtækjunum.

Á sama tíma og þessar upplýsingar eru birtar kynna bankarnir hálfsársuppgjör sín og það er methagnaður. Ef ég man rétt held ég að það hafi verið 48 milljarðar. Aldrei meiri hagnaður. Hvernig er sá hagnaður til kominn? Hann er fyrst og fremst til kominn vegna þess að verið er að reikna niður þann afslátt sem þarna var. Ef við gefum okkur það, sem er rétt, að 1.000 kr. lánið á fyrirtækinu hafi farið úr gamla bankanum á 500 kr. þá er verið að reikna það upp í 600–800 kr. og það kemur út sem hagnaður. Það þýðir að þær leiðréttingar sem lagt var upp með, sem er grunnurinn að því að við getum byggt okkur upp efnahagslega, eiga ekki að ná fram að ganga. Það þýðir að við sjáum stóra hluta þjóðarinnar og efnahagslífsins vera í skuldaspennitreyju næstu árin og væntanlega áratugina og meðan svo er verður enginn hagvöxtur í landinu. Ef fólk getur ekki gert neitt annað en greiða vexti af lánum sínum og ef fyrirtæki gera ekkert annað en greiða vexti af lánum sínum þá verður ekki farið í fjárfestingar. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir, þetta eru fréttirnar fyrir utan þetta hús, þetta er það sem brennur á almenningi.

Virðulegi forseti. Hvað erum við að gera hér? Við erum að fara þvert á það sem hver einasti hv. þingmaður samþykkti þegar þingmannanefndin skilaði niðurstöðum sínum. Við erum að minnka völd þingsins og við erum að auka vald hæstv. forsætisráðherra. Og það liggur svo á að koma þessu í gegn að þrátt fyrir að ekki sé um neinar dagsetningar að ræða, þrátt fyrir að ekki sé búið að reikna út hvað þetta kosti í krónum og aurum, skal öllum brögðum beitt til að keyra þetta í gegn. Allt annað er aukaatriði. Öllu öðru er ýtt til hliðar.

Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ætlar sér að ná hæstv. ráðherra Jóni Bjarnasyni í skrúfstykki. Það verður gert. Og þegar hjálpardekkin koma undir ríkisstjórnina, sem bólar á á undanförnum vikum, er hægt að fara að taka á hæstv. ráðherra frá Hólum. Slíkur er viljinn til að auka völdin að allt það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt í gegnum tíðina — og ég reyni að rifja það upp í huganum hvað hæstv. ráðherra hefur sagt á tyllidögum. Það er gleymt. Ég held, og kannski hv. þingmenn leiðrétti mig, ég hafi einhvern tíma heyrt að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi einhvern tíma á þingferli sínum, sem er nú orðinn nokkuð langur — ég held að það hafi almennt verið svart/hvítt sjónvarp á heimilum landsmanna þegar hv. þingmaður var fyrst kosin á þing — hafi nokkrum sinnum talað um að mikilvægt væri að efla löggjafarsamkomuna, auka veg og virðingu þingsins. (SDG: Hún talaði lengi um það.) Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bendir á að hún hafi talað lengi um það, gott ef það var ekki í metræðu hennar, sem var 10 eða 12 tímar, hvort það bar ekki á góma að auka veg og virðingu þingsins, sjá til þess að þingið gæti haft aðhald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Núna er miklu lengri tíma eytt en í metræðunni í það að keyra í gegn frumvarp sem á að taka þetta sama Alþingi og sjá til þess að það hafi jafnvel enn minna vægi en það hefur haft. Hæstv. ráðherra ætlar ekki bara að ganga lítið fram í því, nei, hún ætlar líka að fá tæki og tól, sem ég verð að viðurkenna að mér finnst ótrúleg. Hverjum datt í hug að hægt væri að setja fleiri en einn ráðherra í ráðuneyti? Úr hvaða umhverfi kemur slík hugmynd? (ÁJ: Umræðupólitíkinni.) Hv. þm. Árni Johnsen kallar fram í að það sé úr umræðupólitíkinni. Það skyldi þó ekki vera að þessi umræðupólitík fari einhvers staðar fram hjá Samfylkingunni. Hún fer kannski fram á milli tveggja aðila. Þeir áttu kannski ekki við að það væri umræðupólitík sem allir gætu tekið þátt í, það er kannski bara milli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Þau sitja og velta því fyrir sér hvernig hægt sé að ná tökum á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Jú, frábær hugmynd, skellum öðrum ráðherra inn í ráðuneyti hans. En verður ekki erfitt að koma þessu við? Nei, nei, við tökum bara þetta sem hét stubbur, sem átti að vera stutt haustþing, og gerum ekkert annað en bara koma þessu máli í gegn. (Forsrh.: Veit þingmaðurinn ekki að ég er búin að hafa þessa heimild í tvö og hálft ár og ég hef ekki notað hana?) Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég gleðst yfir því að hæstv. forsætisráðherra hlustar vel á ræðu mína og ég hlakka til að fá andsvar frá henni. Það er útilokað annað fyrst hæstv. forsætisráðherra er í því að kalla fram í, að hún komi hingað á eftir í andsvar og ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Ég held að hæstv. ráðherra muni ekki geta látið annað spyrjast um sig.

Því miður er það þannig, eins og mig grunaði, að þegar hæstv. ráðherra var í hliðarherbergi þá hlustaði hún ekki nógu vel. Ég fór nefnilega yfir það að þrátt fyrir að þessi heimild hefði verið til staðar þá eru þessar breytingar þess eðlis að þær virkja þá heimild betur, og vísa ég þá ekki bara í 4. gr. heldur í 8. gr. Ég fór mjög vel yfir þetta mál áðan. Ég held að þeir þingmenn sem á hlýddu geti verið sammála um að ég hafi farið prýðilega yfir það. Og þetta er það sem ég var að tala um áðan, að ég hefði áhyggjur af, að ef hæstv. ráðherrum er hleypt í hliðarherbergi þá hlusti þeir ekki af nógu mikilli athygli. Ég vil þó taka fram að ég erfi það ekkert við hæstv. forsætisráðherra, alls ekki, og hlakka til að eiga orðastað við hana þegar hún fer í andsvar við mig, ekki einu sinni heldur tvisvar. Og ég vona að hæstv. forsætisráðherra heyri þetta en hún er víst horfin aftur í hliðarherbergi.

Virðulegi forseti. Svona gerast kaupin á eyrinni og maður getur í það minnsta litið á björtu hliðarnar á öllum hlutum. Björtu hliðarnar á þessari ríkisstjórn, hæstv. forsætisráðherra, eru þær að maður getur séð hvað menn ganga langt til að misfara með völd sín. Þetta frumvarp er ágætisdæmi um það. Eða halda menn að þeir geti fundið þann einstakling á Íslandi, fyrir utan hæstv. ríkisstjórn, sem mundi svara því til ef hann væri spurður hvað brýnast væri að gera fyrir þingmenn: Þið verðið að breyta Stjórnarráðinu, þið verðið að minnka vægi þingsins, þið verðið að koma auknu valdi til forsætisráðherra? Haldið þið að hægt væri að finna einhvern aðila sem mundi segja þetta við okkur? Ég held að það væri ekki nokkur einasta leið. En það breytir engu, forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er svona og ég hvet menn og konur — að vísu eru konur menn — til að skoða og lesa, þá sem til þekkja innan raða ríkisstjórnarinnar, ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem hann flutti í nótt.

Þar fór hann meðal annars yfir það hvernig núverandi hæstv. forsætisráðherra, meðan þingmannanefndin, sem komst að þeirri augljósu niðurstöðu að auka ætti vægi þingsins, var að störfum, var að vinna úr rannsóknarnefndarskýrslunni, setti sérhóp með sínu fólki til að gera hluti sem hv. þingmannanefnd átti að gera. Þetta var ótrúleg ósvífni. Á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra talaði í orði kveðnu um mikilvægi þingsins, mikilvægi þess að þingið geti veitt framkvæmdarvaldinu aðhald og unnið sín mál, setti hún sinn eigin starfshóp fólks úti í bæ, fólks sem hæstv. forsætisráðherra hafði velþóknun á, til að fjalla um nákvæmlega það sama og þingmannanefndin var að fjalla um. Mér þótti fara ótrúlega lítið fyrir gagnrýni á þennan gjörning hæstv. forsætisráðherra en ég er glaður að sjá að það var ekki bara mér sem þóttu þetta forkastanleg vinnubrögð, hv. þm. Atli Gíslason var mér sammála í því.

En stóra einstaka málið er þetta, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er sorglegt að þetta skuli vera forgangsröðun ríkisstjórnarinnar en þannig er það nú samt.