139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég er að koma í mína fyrstu ræðu um það mál sem hér liggur fyrir og hef fylgst þokkalega vel með þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað. Það verð ég að játa að hún hefur á köflum verið upplýsandi en ekki alltaf til sóma. Í gær var til dæmis mjög hörð umræða og maður gæti leyft sér að kalla þann dag dag dónanna á Alþingi út af þeirri umræðu sem var í þessum stól. Orðbragðið bar í mínum huga vitni um að þingmenn voru orðnir fremur vanstilltir. Það var ástæðulaust að láta út úr sér margt það sem hér var sagt um greindarstig stjórnarandstöðu, andlegt ástand og síðan hnútukast út í einstaka embættismenn. Þar ber hæst hnútukast út í forseta Íslands. Þetta er ekki þinginu til sóma og langur vegur frá að hægt sé að una við þetta en það leiðir hugann óneitanlega að því í hvaða stöðu íslensk stjórnmál eru komin. Til þess liggja eflaust margar ástæður en mín nærtækasta skýring er sú að í íslenskum stjórnmálum ríki hálfgert upplausnarástand, landið sé með einum eða öðrum hætti stjórnlaust. Sérstaklega ef maður lítur til lengri tíma er vinnulagið þannig að fyrir hádegi eru teknar ákvarðanir sem eru svo dregnar til baka eftir hádegi. Það er stýrt frá klukkutíma til klukkutíma eða dag frá degi í stað þess að almenningur og fyrirtæki í landinu geti markað sér stefnu til lengri tíma og gripið til ráðstafana í dag sem er ætlast til að haldi, þótt ekki væri nema í eitt eða tvö ár.

Ástæða þess að ég tel landið stjórnlaust er fyrst byggð á því að æðstu forustumenn þjóðarinnar karpa opinberlega í fjölmiðlum. Þó að menn ræði um að þeir geti sest yfir hlutina og rætt þá undir pönnukökubakstri er umræðan öll á annan veg. Menn takast á á æðstu valdastólum og eftir höfðinu dansa limirnir. Þegar maður horfir yfir stjórnmálasviðið draga umræðan í pólitíkinni og störf stjórnmálanna í landinu óneitanlega dám af því að á Alþingi er mjög naumur meiri hluti stjórnarliða. Það eru 32 þingmenn í stjórnarliðinu og 31 í stjórnarandstöðu. Oft og tíðum, m.a. í því máli sem hér liggur fyrir, eru síðan þessir 32 stjórnarliðar ekki sammála um áherslur og ekki einhuga um þau mál sem stjórnarmeirihlutinn leggur fram. Í því ástandi vega síðan röksemdir eða það sem stjórnarandstaðan setur fram mjög þungt inn í það verkefni sem ríkisstjórnin vill koma til vegs. Þetta er mjög miður og í rauninni, eins og ég nefndi áðan, upplifum við í mörgum málum með hvaða hætti áformin ganga ekki eftir. Nægir í því sambandi að nefna áhuga og örugglega vilja á sumum stöðum í stjórnarliðinu til að koma hér af stað ákveðnum verkefnum sem ekki hefur gengið.

Eitt lítið dæmi má nefna, áform um byggingu fangelsis. Allir eru í rauninni sammála um það og niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð sú að fangelsið skyldi byggt en enn á eftir að leysa úr því ágreiningsefni milli ráðherra einstakra hver eigi að borga og hvernig eigi að greiða fyrir þá framkvæmd. Á meðan það gerist ekki veltur verkefnið áfram og gengur hægt og illa að koma því til frekari vegs.

Fleiri mál mætti tína til sem taka til þess með hvaða hætti stjórnunin í þessum efnum er veik. Þess vegna er ég ekki alveg sammála þeim áherslum sem hafa verið í umræðunni af hálfu stjórnarandstöðunnar um að hér sé gerð tilraun til að styrkja oddvitaræðið og hlaupa undir bagga með oddvita ríkisstjórnarinnar í því verki að herða tök viðkomandi á stjórnarráðsskipaninni. Ástæða þess að ég er kannski ekki alls kostar sammála því er einfaldlega sú að oddviti ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherrann, hefur í mínum huga ekki þau tök á því verkefni sem við erum vön og ætlumst til að forsætisráðherrann hafi. Ég tel að það embætti eins og það er skipað í dag muni ekkert frekar ráða við aukin völd ef því er að skipta ef þetta gengur fram frekar en í dag.

Í mínum huga eru mjög þung þau sjónarmið sem komið hafa fram í þessu máli sem lúta að því sem snýr að verkaskiptingu þingsins og framkvæmdarvaldsins. Í þessu frumvarpi er vissulega verið að styrkja stöðu framkvæmdarvaldsins frá því sem nú er og færa frá Alþingi tækifæri til að hafa áhrif á það með hvaða hætti Stjórnarráðinu er skipað. Gott og vel, það getur vel verið að fyrir liggi vilji manna til að styrkja framkvæmdarvaldið og Stjórnarráðið með þeim hætti sem hér liggur fyrir en ég held að flestir geti verið sammála um að umræða Alþingis síðustu missirin hafi verið í þá veru að það beri að leggja gríðarmikla áherslu á að styrkja stöðu Alþingis frá því sem verið hefur. Undirliggjandi ástæða þessarar hörðu gagnrýni í umræðunni er kannski að þingmenn, bæði einstakir stjórnarliðar en stjórnarandstaðan mjög samhuga í því, kvíða því að eiga samskipti við framkvæmdarvaldið ef þetta frumvarp verður að veruleika eins og það liggur fyrir.

Það skortir í rauninni ekkert á vilja ríkisstjórnar til að búa þannig um hnúta að staða þingsins sé styrkt og hún ætli sér að vinna á þeim grunni ef við horfum til þess hvernig hún færir það í letur. Það lítur ágætlega út á blaði en efndirnar í þeim efnum hafa því miður ekki orðið til jafns við það sem ritað hefur verið á blað.

Svo segir til dæmis í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem gerður var í kjölfar kosninganna 2009 um stjórnkerfisumbætur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun gera umtalsverðar stjórnkerfisbreytingar og umbætur í því skyni að gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.“

Svo segir:

„Víðtækt samráð verður haft við starfsfólk, almenning og hagsmunaaðila og leitast við að skapa almennan skilning og samstöðu um nauðsyn þessara breytinga.“

Það verður að játast að í því máli sem hér liggur fyrir, sérstaklega hinu umdeilda ákvæði í 2. gr. frumvarpsins, hefur ekki tekist að skapa þennan almenna skilning og samstöðu sem sýnir fram á og telur menn inn á þá nauðsyn sem ber til þess að gera þá breytingu sem þar er umrædd, að skipan Stjórnarráðsins verði byggð á forsetaúrskurði en ekki með lögum frá Alþingi. Í það minnsta hefur stjórnarandstaðan ekki enn fengið þennan skilning og sér ekki ljósið í því máli. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki stjórnarfrumvarp í eiginlegri merkingu þess orðs, a.m.k. einn ráðherra í ríkisstjórninni er því andvígur og annar sat hjá við afgreiðslu þess. Sá ráðherra sem greiddi atkvæði gegn þessu gerði það með bókun í ríkisstjórn.

Fleiri orð í þessa veru um þennan almenna skilning og samstöðu um nauðsyn þess að breyta um takt hafa verið sett á blað. Ég leyfi mér að lesa upp úr landsfundarræðu Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna, á landsfundi þeirrar stjórnmálahreyfingar í mars 2009. Þar sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Hvað þurfum við að byggja í íslensku samfélagi sem hefur glatast?

Við þurfum að byggja upp traust, við þurfum að endurlýðræðisvæða íslensk stjórnmál og íslensk þjóðmál almennt. Við verðum að tryggja með opnum, heiðarlegum og gagnsæjum vinnubrögðum að þá hyldýpisgjá tortryggni og vantrausts sem myndast hefur í íslensku samfélagi takist að brúa þannig að við förum ekki með allt of djúp ör á sálinni eftir þennan hildarleik inn í framtíðina.“

Þetta lítur ágætlega út á blaði og hefur eflaust hljómað ágætlega í eyrum fundarmanna, en þetta er ekki sá vilji sem hefur birst almenningi í þessu landi þegar hann hefur horft til starfa Alþingis á síðustu mánuðum, því miður. Ég hlýt að ætla það og gera þá kröfu að oddvitar ríkisstjórnarinnar sem eru lýðræðislega kjörnir til þeirra starfa og myndaður er meiri hluti um á Alþingi hafi forgöngu um það og þeirra ábyrgð er mest til þess að leiða störf þingsins fram með þeim hætti sem þessi fallegu orð í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar hljóða upp á og ekki síður þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra viðhafði á landsfundi sinnar stjórnmálahreyfingar í mars árið 2009.

Það mál sem hér liggur fyrir er því miður orðið enn eitt málið í röð allmargra mála sem komið hafa frá hæstv. ríkisstjórn sem leitt hafa til gríðarlegra deilna á Alþingi. Okkur hefur ekki auðnast að vinna þau verk nema með einhverjum harmkvælum þegar hilla fer undir lok þings, hvort heldur er fyrir jólin, árslok, lok að vori eða á þessum septemberstubbum sem menn kalla svo. Ég mælist ekkert til þess að þingi ljúki endilega hér í kvöld. Við ræðum þetta mál einfaldlega eins lengi og menn hafa áhuga á og ekki hef ég áhuga á að láta hafa þau orð um mig að ég taki þetta mál í gíslingu með því að flytja mitt mál. Ég áskil mér frelsi til að ræða það svo lengi sem ég vil.

Þrátt fyrir allt sem gerst hefur ber málin að með þessum hætti á þinginu. Ég vísa til ábyrgðar hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum. Hennar er að leiða málin inn og greiða úr þeim flækjum sem koma ef hún ætlar og vill, sem ég vona að hún vilji og ætla henni ekki annað, standa undir því merki að bera þann kross að vera forsætisráðherra þessa ágæta lands.

Viðbrögðin við þeirri gagnrýni sem stjórnarandstaðan hefur sett fram á þá grein sem mestur styrinn stendur um, 2. gr., hafa verið að þetta byggi á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöðum þingmannanefndarinnar. Það er vísað til þess. Ef við förum aðeins í gegnum það dæmi var hv. þm. Atli Gíslason með ræðu um þetta mál hér í nótt, einhvern tímann milli miðnættis og eitt í nótt, þar sem hann fór yfir sína sýn til þess. Mér þótti þetta mjög merkileg ræða, ekki síst fyrir það að hv. þm. Atli Gíslason var formaður þeirrar þingmannanefndar sem vann úr niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar og leiddi það mál fram fyrir Alþingi og ég held að mat flestra sé að hann hafi unnið það af bestu samvisku í samstarfi við þingmenn annarra flokka. Hann hélt því mjög stíft fram í ræðu sinni að það væri langur vegur frá að breytingin í 2. gr. í frumvarpinu um Stjórnarráðið stæði með þeim tillögum sem þingmannanefndin gerði og því síður því sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég freistast til þess að taka fullt mark á formanni þingmannanefndarinnar þegar hann flytur Alþingi þennan skilning sinn. Í því sem ég hef náð að höndla af umræðunni hafa ekki komið fram nein rök frá stjórnarliðum til að hrekja þær fullyrðingar sem hafa komið frá hv. þm. Atla Gíslasyni, formanni þessarar þingmannanefndar. Ég freistast til að álykta sem svo að skilningur hv. þm. Atla Gíslasonar á þessu máli sé fyllri og betri en þeirra sem reyna að verja 2. gr. og ekki síður þeirra sem sömdu frumvarpið.

Ef við lítum aðeins nánar inn í skýrslur rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar er mjög fróðlegt að lesa þau ummæli sem þar eru höfð uppi, sérstaklega ef maður byrjar á umfjöllun skýrslu rannsóknarnefndarinnar um íslenska stjórnmálamenningu. Þar segir á bls. 179 í 8. bindi þeirrar skýrslu, með leyfi forseta:

„Eitt einkenni hennar [þ.e. íslenskrar stjórnmálamenningar] er að foringjar eða oddvitar flokkanna leika lykilhlutverk en hinn almenni þingmaður er atkvæðalítill. […] Stjórnmálamenn draga hins vegar ávallt dám af þeirri stjórnmálamenningu sem þeir lifa og hrærast í. Séu stjórnsiðirnir slæmir og stjórnkerfið veikt geta sterkir stjórnmálamenn verið varasamir. […] Þannig gegnir þingið formlegu löggjafarhlutverki sínu, en bæði umræðuhlutverkið og eftirlitshlutverkið eru vanrækt.“

Þetta er mergur málsins í mínum huga. Vinnubrögðin sem ástunduð eru á Alþingi bera þess vitni að við ástundum þá stjórnmálamenningu sem varað er við í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég vænti þess að íslenskir stjórnmálamenn vilji gera breytingar þar á. Í sama bindi, 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndarinnar, á bls. 180 er enn fremur mjög athyglisverður kafli sem skiptir verulegu máli um það frumvarp sem við erum að ræða hér og snertir 2. gr. frumvarpsins. Ég ætla enn og aftur að vitna til skýrslunnar, með leyfi forseta:

„Mikið ráðherraræði eykur líkurnar á gerræðislegum ákvörðunum sem efla vald viðkomandi stjórnmálamanns. Þetta helst gjarnan í hendur við þrönga sýn á lýðræðið sem felst í því að stjórnmálamenn beri verk sín reglulega undir dóm kjósenda og þess á milli eigi þeir að hafa frjálsar hendur um það hvernig þeir fara með völd sín, svo lengi sem þeir halda sig innan ramma laganna. Þetta er afar þröng sýn á lýðræðislegt lögmæti stjórnarhátta. Það er mikilvægur hluti af lýðræðislegum stjórnarháttum að haga ákvörðunum stjórnvalda jafnan þannig að þær standist skoðun og séu teknar í sæmilegri sátt við þá sem málið varðar. Frá því sjónarmiði séð krefjast lýðræðislegir stjórnarhættir þess að mál séu faglega undirbúin, ígrunduð og vel kynnt, en ekki bara að verk stjórnmálamanna séu lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabils.“

Það er ekki að sjá að nokkur sátt sé meðal þingmanna um 2. gr. frumvarpsins. Eins og ég hef áður vikið að finnst mér með ólíkindum að ekki sé hægt að koma stjórnarandstöðunni í skilning um nauðsyn þessarar breytingar út frá einhverjum öðrum forsendum en þeim að þessi tillaga byggi á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis.

Þá getum við alveg vikið að niðurstöðum og meginályktunum í þingmannanefndinni sem í öllum megindráttum tekur undir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Alþingi dásamaði skýrslu þingmannanefndarinnar í bak og fyrir og þakkaði þeirri nefnd fyrir mjög vandaða og góða vinnu, svo mjög að þingsályktunartillaga sem þingmannanefndin lét frá sér fara var samþykkt hér með 63 greiddum atkvæðum. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi í sögu Alþingis. Í skýrslu þeirrar sömu nefndar til þingsins segir um Alþingi á bls. 5, með leyfi forseta:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við. Meginniðurstöður þingmannanefndarinnar varðandi Alþingi eru þær að auka þurfi sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, leggja beri meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar.

Þingmannanefndin telur brýnt að Alþingi taki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt og marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Þingmannanefndin telur fulla ástæðu til að taka alvarlega gagnrýni í umfjöllun vinnuhóps um siðferði um íslenska stjórnmálamenningu og leggur áherslu á að draga verði lærdóm af henni. Alþingi á að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt er að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum.“

Svo mörg voru þau orð.

Er það frumvarp sem liggur fyrir unnið með þau sjónarmið fyrir augum og þær áherslur sem hér greinir? Ég held að enginn þingmaður geti með sanni svarað þeirri spurningu játandi eftir að hafa verið þátttakandi í þeirri umræðu sem hér hefur staðið yfir frá því á föstudag í síðustu viku. Ástæðan fyrir því hvernig komið er í umræðunni er einfaldlega sú að þetta er ekki unnið í þessum anda. Þrátt fyrir góð orð, þrátt fyrir vinnu rannsóknarnefndarinnar, þrátt fyrir vinnu þingmannanefndarinnar og þrátt fyrir þá þingsályktun sem Alþingi gerði sjálft með þessum eindæma hætti hefur ekkert verið unnið í þeim anda sem hér greinir og sérstaklega ekki að því sem lýtur að þessu umdeilda ákvæði.

Hvernig skyldi svo þessi ályktun vera sem Alþingi samþykkti í 28. september 2010? Þetta er þingsályktun um viðbrögð Alþingis við þeirri skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem við samþykktum að setja á fót og ég ætla að lesa upp nokkrar málsgreinar úr þessari ályktun. Ég vek athygli á því að Alþingi samþykkti þetta með öllum greiddum atkvæðum eftir allsamhljóða umræðu þeirra sem ræddu þá þingsályktunartillögu sem fyrir lá. Ályktunin sem ég ætla að lesa hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.

Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Ég ætla að láta þetta duga, virðulegi forseti, um ályktun Alþingis en vek athygli á því að sá ásetningur sem kemur fram í ályktuninni er að mínu mati góður. Hann er einbeittur og tiltölulega skýr. Þrátt fyrir það hefur stjórnarmeirihlutinn, ekki bara í þessu máli heldur í fleiri málum sem við höfum fengið inn í þingið, unnið málið þannig að þau koma hingað inn í bullandi ágreiningi við allt og alla. Það er nóg að nefna bara það litla stóra dæmi sem fólst í öðru sjávarútvegsfrumvarpinu þar sem vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og ekki á neinn hátt í samræmi við þær áherslur sem þingmenn voru sammála um að leggja bæri til grundvallar í störfum sínum í september árið 2010, fyrir réttu ári.

Í lok þessarar ályktunar, hún var raunar í þremur liðum, var samþykkt að leggja út í ákveðnar rannsóknir og úttektir á vegum þingsins. Þær vörðuðu starfsemi lífeyrissjóðanna, orsakir og fall sparisjóðanna, það að gera stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og síðan í þriðja lið var samþykkt að nefnd á vegum þingsins mundi hafa eftirlit með úrbótum á löggjöf sem þingmannanefndin leggur til í sinni skýrslu, að þessu yrði hrint í framkvæmd. Sú nefnd hefur enn ekki verið skipuð, ári eftir að Alþingi gerði þessa dæmalausu og merkilegu ályktun. Menn geta spurt sig hvað veldur. Mín helsta skýring á því er sú að þingið eigi í mestu vandræðum með að vinna mál á sínum eigin forsendum.

Eitthvað í stjórnsýslu okkar veldur því að þingið hefur ekki nýtt sér það svigrúm sem það hefur til sjálfstæðis. Mér er engin launung á því að þegar þingið lendir í gíslingu deilna með hvert málið á fætur öðru um bæði mikilvæg og minna mikilvæg mál hefur þingið ekki burði til að brjótast út úr þeim hlekkjum, hvað sem veldur. Skýringin hefur alltaf verið sú að forræði mála er á hendi þeirra sem búa þau í hendur þingsins og það er farið að þeim tilmælum sem þeir leggja fram.

Ég vænti þess, forseti, að þær tilvitnanir sem ég hef nefnt í ræðu minni í skýrslur rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar fái þingmenn til að fallast á að þær áherslur sem flytjendur þessa frumvarps hafa lagt á að frumvarpið sé í fullu samræmi við niðurstöðu þessara tveggja nefnda standast ekki. Það er ástæðulaust að bera fyrir sig þau rök. Við eigum að geta verið menn til að ræða það hvers vegna þetta er sett fram með þeim hætti í stað þess að reyna að skjóta sér á bak við eitthvað sem ekki er satt. Ég hef enga ástæðu, eins og ég sagði í upphafi máls míns, til að draga í efa skilning formanns þingmannanefndarinnar á þeirri afurð sem sú ágæta nefnd skilaði þinginu. Hvers vegna í ósköpunum má þá ekki ræða það af hverju þetta er með þeim hætti sem hér birtist? Hvaða rök liggja til þess að þetta þurfi að gera?

Því var haldið fram í umræðu fyrst þegar þetta frumvarp kom í vor að það væri lengsta uppsagnarbréf í sögu þjóðarinnar. Á öllum sínum síðum væri það smíðað til að koma tilteknum einstaklingi úr ráðherrastóli. Ég ætla að menn eigi ekki að þurfa að vinna með þeim hætti en meðan þessu er ekki svarað draga menn óneitanlega ályktanir í þessa veru. Það er fullkomlega eðlilegt að gera kröfu um að framsetningin með þeim hætti sem hér greinir sé rökstudd til muna betur en nú er gert.

Því hefur líka verið haldið fram að hér sé verið að innleiða gamla stjórnarhætti. Það kom ágætlega fram í ágætri ræðu hjá hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni við upphaf þessa máls að sú tilhögun sem verið er að leiða í lög um Stjórnarráðið hafi verið aflögð árið 1969. Þá var hún búin að vera við lýði í 30 ár. Með þeim hætti er verið að reyna að leiða í lög og koma á skipulagi sem viðgekkst fyrir líklega 72 árum. Ætli það láti ekki nærri að vera um það bil samanlagður starfsaldur oddvita ríkisstjórnarinnar á þingi, og það fer þá vel á því að við innleiðum þá tilskipun sem allir voru sammála um árið 1969 að væri ótæk — eftir 30 ára reynslu.

Ég vil nefna líka að það hefur verið fært fram sem röksemd fyrir því að gera þetta, þetta kemur fram í III. kafla frumvarpsins, að gildandi lög girði fyrir það með sinni tæmandi upptalningu á ráðuneytum í lögum að ríkisstjórn geti lagað skipulag sitt að breyttum áherslum. Tilgangurinn með frumvarpinu er sem sagt að auðvelda Stjórnarráðinu að laga sig að breyttum þörfum og áherslum við pólitíska stefnumörkun. Þessi áhersla og þessi röksemd fyrir því að gera þetta stenst heldur ekki skoðun ef litið er þótt ekki sé nema aftur til ársins 2007. Sú reynsla kennir að ríkisstjórnarflokkunum á hverjum tíma er í rauninni hægur leikur að breyta skipulagi Stjórnarráðsins. Árið 2007 voru sameinuð og breytt heitum á ráðuneytum tvist og bast, sömuleiðis 2009 og einnig 2011. Í mínum huga eru þetta ekki röksemdir sem standast og fullkomlega eðlilegt að kallað sé eftir því að önnur og frekari rök verði færð fyrir þeirri afstöðu sem byggja undir þá breytingu sem þarna er verið að gera.

Það er annar þáttur í þessu sem ég vil líka nefna um sameiningu og breytingar á ráðuneytum og hann snertir kostnaðarþátt þessa frumvarps. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að fara fram á að hvert lagafrumvarp sem lagt er fram sé kostnaðarmetið. Það er líka í regluverki þingsins að svo skuli vera. Kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er ekki mjög nákvæm með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og nú liggur að auki fyrir að meiri hluti í allsherjarnefnd, sá veiki meiri hluti sem þar er því að helftin af stjórnarmeirihlutanum tekur þetta mál út með fyrirvara, reynir heldur ekki að kostnaðarmeta frumvarpið og breytingarnar. Að því gefnu að stjórnarmeirihlutinn haldi við það verk liggur fyrir að ýmsar breytingar í þessu frumvarpi munu leiða til aukins kostnaðar frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Munar þar mest um þá breytingu sem töluvert hefur verið rædd hér um aðstoðarmenn ráðherra og fjölgun þeirra upp í 23.

Í mínum huga er ekkert skrýtið þó að þetta atriði veki allnokkra umræðu á Alþingi. Í ljósi styrks framkvæmdarvaldsins við verkefni sín umfram styrk Alþingis til sömu verka skýtur það í mínum huga óneitanlega skökku við ef Alþingi er á sama tíma og gengið er til verka með þeim hætti að skera niður útgjöld til ýmissa mála tilbúið að auka fjárveitingar til Stjórnarráðsins, til framkvæmdarvaldsins, og styrkja það í störfum sínum. Það er heldur ekki um neinar litlar fjárhæðir að ræða, metið á ársgrunni eru það sennilega um það bil 150–200 millj. kr. Sú breyting sem meiri hluti allsherjarnefndar gerir á frumvarpi forsætisráðherra er að þær breytingar er lúta að aðstoðarmönnunum taki strax gildi. Gert var ráð fyrir því í frumvarpinu að hún tæki ekki gildi fyrr en við lok kjörtímabils.

Það er í sjálfu sér fullkomlega eðlilegt að þingmenn sem hafa löngum verið plagaðir af styrk Stjórnarráðsins umfram Alþingi láti hluti sem þessa fara nokkuð í taugarnar á sér og kalli eftir frekari svörum og rökstuðningi fyrir því að gera þetta á sama tíma og verið er að herða ólina að þinginu í sínum störfum.

Ég vil leyfa mér að nefna hér nokkuð sem var ærið umdeilt þegar það var sett á, aðstoðarmenn þingmanna í landsbyggðarkjördæmum. Það var fyrir það fyrsta dregið í sundur í miklu háði, en sú breyting var liður í samkomulagi stjórnmálaflokkanna á Alþingi þegar breyting var gerð á kjördæmaskipun í landinu, landsbyggðarkjördæmin stækkuð og þau gerð að þessum ógnarhlemmum. Þá var í samkomulagi stjórnarflokkanna á þeim tíma gert ráð fyrir því að hver þingmaður af landsbyggðinni úr þessum stóru kjördæmum fengi aðstoð eins starfsmanns. Sú tilraun sem gerð var fyrir þremur árum var í þá veru að þingmaður í þessum stóru kjördæmum fengi aðstoð sem næmi 30% starfshlutfalli aðstoðarmanns. Það var lagt af með vísan til sparnaðar. Þingið varð að skera þetta af og allt í góðu lagi með það. Þingið gat tekið á eins og aðrir sem þiggja fé á fjárlögum. Alla tíð síðan, og það á sér örugglega lengri sögu, hefur verið umræða um að Alþingi hafi til muna verri stöðu til að rækja sitt lögbundna eftirlitshlutverk og löggjafarhlutverk en Stjórnarráðið, þ.e. framkvæmdarvaldið.

Ég heiti á þá stjórnarliða sem styðja þá breytingu sem þarna er lögð fram að leggja með sama hætti áherslu á að styrkja þingið í því starfi sem því er ætlað. Er ekki vanþörf á. Ég get nefnt það þótt ekki væri nema af þeirri reynslu sem ég hef af vinnu í fjárlaganefnd þingsins að þar gætum við haft og þyrftum betri tæki til úrvinnslu en við höfum. Þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir við fjárlagagerð, ekki bara í nefndinni heldur hér á þinginu, eru ærin og gæfu fullt tilefni til þess þótt ekki væri nema að hafa brot af þeirri fjárhæð sem menn virðast tilbúnir að setja inn í Stjórnarráðið. Meðan þetta er ekki unnið með þeim hætti tek ég lítið mark á orðum þeirra stjórnarliða sem tala um að við þurfum að styrkja þingið í því að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Hún skýtur mjög skökku við, sú forgangsröðun sem birtist okkur í þeim efnum í þessu frumvarpi og þeim breytingartillögum allsherjarnefndar sem liggja fyrir.