139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég geri sömu kröfu og hv. þingmaður sem talaði á undan mér, að hæstv. forsætisráðherra verði tafarlaust kölluð í þennan þingsal.

(Forseti (KLM): Forseti mun koma þeim skilaboðum til forsætisráðherra, en upplýst hefur verið að forsætisráðherra er á fundi hér í húsinu. Annar oddviti ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. fjármálaráðherra, er kominn í salinn.)

Herra forseti. Það dugar ekki því að hæstv. forsætisráðherra eru faldar allar valdheimildir samkvæmt frumvarpi þessu en ekki hæstv. fjármálaráðherra. Nái frumvarpið að verða að lögum verður hæstv. fjármálaráðherra einungis aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra því að það á bæði að svipta hann titli og ráðuneyti hans nafni. Ég óska því eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi og ræði málin við þingmenn. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki tjáð sig um þær spurningar sem lagðar hafa verið fram, hvað þá tekið til máls í umræðunum. (Gripið fram í.) Ég verð því að tilkynna, virðulegi forseti, að ég verð að bíða hér þar til hæstv. forsætisráðherra kemur í salinn.

Ég spyr virðulegan forseta: Er hægt að gera hlé á fundinum á meðan hæstv. forsætisráðherra klárar mál sín og kemur í ræðusal?

(Forseti (KLM): Forseti situr ekki fyrir svörum á þessum fundi en getur upplýst að ekki er fyrirhugað að gera hlé á fundinum. En þeirri beiðni sem þingmaðurinn lagði fram í upphafi í ræðu sinnar fyrir tveimur mínútum hefur verið komið til hæstv. forsætisráðherra.)

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að fundinum verði frestað þar til hæstv. forsætisráðherra sér sér fært um að koma í þingsal.

(Forseti (KLM): Forseti getur ekki orðið við þeirri ósk.)

Hæstv. forseti. Þá verð ég að standa í þessum ræðustól og bíða þar til hæstv. forsætisráðherra kemur í þingsal því að mikið hefur verið kallað eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi í dag og ræði þær valdheimildir sem hún færir sér sjálf með frumvarpi þessu.

Virðulegi forseti. Það er í valdi forseta að stöðva þennan fund þar til þessari ósk er komið á framfæri við forsætisráðherra, ég minni á það.

(Forseti hringir.) (Forseti (KLM): Forseti hefur lýst því yfir að þessum fundi verður ekki frestað vegna þessarar óskar. Hún er komin til forsætisráðherra. Hún var borin fram fyrir þremur mínútum síðan.)

Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið máli mínu og óska eftir því að komast á mælendaskrá aftur eins fljótt og verða má. Þá óska ég eftir því að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd þessa umræðu.