139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta nú skemmtilegasti hlutinn af umræðunni, þ.e. fundarstjórn forseta, sérstaklega eftir að farið er að líða á hana. Hún brýtur upp flatneskjuna sem oft vill verða í ræðum sem haldnar eru aftur og aftur. Ég hef ákveðinn húmor fyrir því (Gripið fram í.) og hugmyndir um hvort e.t.v. mætti útfæra það betur og skipuleggja þannig að við gætum gengið að þessu nokkuð vísu, kannski á hálfa tímanum eða heila tímanum, og jafnvel hvort hægt væri að upplýsa um það hverjir mundu taka til máls, því að það skiptir líka máli hvað þetta varðar.

Annars hvet ég hæstv. forseta til að sjá til þess að þingfundur haldi áfram og að menn fái að komast í ræður sínar, því að það var að koma ný mynd á ræðurnar hjá stjórnarandstæðingum sem stóðu þegjandi í ræðupúlti áðan. Ég held að það sé dálítil eftirspurn eftir því.