139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því að herra forseti sagði áðan að ástæðan fyrir því að hæstv. forsætisráðherra gæti ekki verið viðstödd umræðurnar hér í salnum væri sú að hæstv. forsætisráðherra væri upptekin við að skipuleggja framvindu þingstarfa. Er það ekki hlutverk herra forseta að skipuleggja framvindu þingstarfa?

Við höfum reyndar verið að velta því dálítið fyrir okkur í dag hver stjórnaði þessu þingi og dagskrá þingsins, enda sætir það mikilli furðu að hér bíði 50 mál, rétt tæplega 50 mál á dagskrá en herra forseti haldi áfram að ræða einungis eitt mál, hið sérstaka áhugamál hæstv. forsætisráðherra.

Herra forseti sagði áðan að ræða þyrfti þetta töluvert áfram vegna þess að svo margir væru á mælendaskrá. Hvenær kemur nú að því að herra forseti fari að leggja saman tvo og tvo og sjái að ekki gengur mjög mikið á mælendaskrána? Hvers vegna skyldi það vera? Ætli það sé ekki vegna þess að hæstv. forsætisráðherra er ekki (Forseti hringir.) hér til staðar til að veita svör við þeim spurningum sem menn þurfa að þá endurtaka, í von um að hæstv. forsætisráðherra verði vör við spurningarnar í hliðarsölum eða einhvers staðar úti í bæ og komi og svari þeim?