139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Framlag stjórnarþingmanna til umræðunnar virðist helst vera það að haga sér eins og dómarar í danslagakeppni, gefa einkunnir um ræður þingmanna, nema hvað dómarar í danslagakeppni eru mun kurteisari en þeir sem hafa komið hingað upp í þetta ræðupúlt.

Eftir stendur að það þarf að koma og mjaka málum áfram, klára mál sem eru á dagskrá. Þau verða ekki kláruð meðan hæstv. ráðherrar koma ekki hingað í þingsalinn til að svara einföldum spurningum.

Ég hef þegar tjáð mig um það að ég vilji beina spurningu til hæstv. innanríkisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ekki síst fjármálaráðherra, en þeir hafa ekki birst hér. Þetta eru einfaldar spurningar. Ég hef reynt að telja allar þær spurningar sem stjórnarandstaðan hefur sett fram í ræðum sínum, ég held að þær séu komnar hátt í 200, og ég held að ekki hafi fengist svar við einni spurningu, ekki einni spurningu. Er það virðing gagnvart löggjafarvaldinu? Ég segi nei.

Eftir stendur að við getum ekki afgreitt gjaldeyris- og tollalög. Við getum ekki afgreitt vatnalög, hvað þá húsnæðismál (Forseti hringir.) sem snerta hag heimilanna. Þetta finnst mér miður.