139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt, ráðherrum ber að fara eftir ákvörðunum Alþingis, en veldur hver á heldur eins og dæmin sanna.

Forsætisráðherra fær auknar heimildir samkvæmt þessu frumvarpi miðað við það sem nú er, t.d. getur breytingin um að hægt sé að skipta einu ráðuneyti milli fleiri en eins ráðherra falið í sér mikil völd fyrir forsætisráðherra, t.d. þegar tveir ráðherrar eru settir í sama ráðuneyti, annar fær alla veigameiri þættina og hinn einhverja veigaminni. Annar fær umdeildu málin, hinn þau óumdeildu. Það getur skipt verulegu máli hvernig forsætisráðherra skipar mönnum til verka að þessu leyti.

Eins vildi ég benda á, og vísa þá til ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur þegar hún vísar til núgildandi laga um það hvernig forsætisráðherra sker úr í sambandi við það hvert málaflokkar eiga að fara, að (Forseti hringir.) í ákvæði 8. gr. núgildandi laga segir að við slíka skiptingu skuli þess gætt (Forseti hringir.) „að ráðuneyti lúti málefni, sem eðli sínu samkvæmt eiga þar heima“ (Forseti hringir.) en ekkert sambærilegt ákvæði er í frumvarpinu.