139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, það er ekki eins og að verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins hafi aldrei verið breytt, þvert á móti. Slíkar breytingar hafa verið tíðar á undangengnum árum en ég hef ekki orðið var við það í þinginu að eitthvert meiri háttar málþóf hafi átt sér stað um þær. Þvert á móti hafa þær hugmyndir farið til nefndar og tekið breytingum í störfum nefndarinnar og þá yfirleitt til bóta vegna þess að þar er farið yfir málið með yfirveguðum hætti og fulltrúar allra þingflokka koma að því starfi. Hér er verið að breyta áratugalangri hefð, verið að keyra í gegn mál, sem ætti að vera samkomulagsmál, í algeru samráðsleysi og það er líka nýlunda.

Ég held reyndar að fundur formanna þingflokka hafi verið fyrst í kvöld síðan á mánudag, þar líða fjórir dagar. Það er fáheyrt og í raun og veru einsdæmi á lokadögum þingsins að svona sé staðið að samkomulagi á milli þingflokka. Þetta eru algerlega ný vinnubrögð sem mér finnst ekki vera til eftirbreytni.