139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sé svo sem ekki mikinn tilgang í því að umræðan haldi áfram á meðan hæstv. ráðherrar eru ekki tilbúnir til að svara þeim spurningum sem beint hefur verið til þeirra. Hver er tilgangurinn með því að hv. þingmenn standi hér og ræði málið án þess að hæstv. ráðherrar séu svo lítið sem tilbúnir til að taka þátt í umræðunni og svara þeim spurningum sem beint hefur verið til þeirra?

Hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa þó gert það. (Gripið fram í: … spurningu …) Þeir hafa svarað þeim spurningum sem hefur verið beint til þeirra. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki fengið neinar spurningar en það kann að vera að hann fái þær síðar í kvöld og nótt. Ég vil því hvetja til þess að hæstv. forseti hafi samband við hæstv. forsætisráðherra, fái hana í salinn og hvetji hana til að taka þátt í umræðunum. Ef ekki, væri eðlilegt að fresta fundinum þar til hæstv. forsætisráðherra sér sér fært að koma hingað og ræða við alþingismenn um frumvarpið (Forseti hringir.) og þá staðreynd að verið er að færa vald frá Alþingi Íslendinga (Forseti hringir.) til hæstv. forsætisráðherra.