139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú þeirrar skoðunar eftir að hafa hlustað á hv. þingmann og þegar ég fer yfir fyrri samræður okkar yfir þennan ræðustól á hinu háa Alþingi að það sé ekki mjög langt á millum viðhorfa minna og hennar. Hv. þingmaður sagði það algjörlega skýrt að viðfangsefnið væri þarft. Hún taldi hins vegar að það mætti nálgast með öðrum hætti og hún var ekki nægilega ánægð með það að forsendur væru nógu skýrar. Ég er henni ósammála um það.

Ég held þvert á móti að þrátt fyrir það sem má kallast skautun í íslenskum stjórnmálum sé mjög mikil þörf á því að skapa vettvang af þessu tagi þar sem ólíkir flokkar með ólík sjónarmið geta ræðst við, kafað djúpt í málefnin og vonandi komist að niðurstöðu sem felur í sér breiða samstöðu um aðalatriðin í því sem kalla má öryggisstefnu fyrir Ísland. Það tekur bæði til varnarmála en það tekur ekki síður til þeirra nýju ógna sem hafa verið felldar undir hina síðari tíma og þörfu skilgreiningu á öryggishugtakinu.

Það má segja að þróun þess hér á landi hafi hafist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í samstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á sínum tíma með skýrslum sem þá komu frá utanríkisráðuneytinu þar sem menn voru einmitt að leggja drög að því að Íslendingar tækjust á með skipulögðum hætti við þessar nýju ógnir. Við höfum séð það í kringum okkur í löndum sem ekki liggja víðs fjarri að það er brýn nauðsyn á því. Ég nefni sem dæmi að við höfum séð það í löndunum í kringum okkur, einu af okkar kærasta nágrannalandi til dæmis, að þessi lönd eiga á hættu að sæta árásum t.d. á fjarskiptakerfi þeirra. Ef fjarskiptakerfi lamast með einhverjum hætti í landi eins og Íslandi eru það ekki bara samskiptin við útlönd heldur hugsanlega líka lífæð okkar, orkuvirkin o.s.frv. Ég gæti nefnt margt fleira.

Ég held að það sé brýn þörf á því að ræða þetta. Hugsanlega verður það erfitt, hugsanlega verður erfitt að ná samstöðu. (Forseti hringir.) En þörfin er fyrir hendi að ólíkar stjórnmálahreyfingar ræði þetta í þaula, brjóti til mergjar og helst komist að sameiginlegri niðurstöðu um breiðu drættina.