139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér heimild Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán og það er eiginlega það sem situr eftir af frumvarpinu eftir að nefndin er búin að fara í gegnum það, og ég er því mjög hlynntur. Ég hef alltaf talið það mjög neikvætt að Íbúðalánasjóður, stærsta lánastofnun landsins í lánveitingum til almennings og heimila, beini fólki markvisst inn í verðtryggingu. Og ekki nóg með það, frú forseti, heldur beinir hann með ákveðnum hætti fólki inn í löng lán, jafnvel 40 ára lán, þar sem eignamyndun er mjög hæg. Hann hefur reyndar stundum boðið 20 ára, 25 ára og 30 ára lán, en allt skal það vera verðtryggt. Þetta er mjög slæmt vegna þess að eignamyndunin verður mjög hæg og fólk er mjög berskjaldað fyrir sveiflum í verði fasteigna.

Það er reyndar vandi um allan heim að þegar fasteignaverð lækkar mikið lenda menn í vandræðum með eigið fé. Það er ekkert síður á Spáni og í Danmörku en hér á landi og ég hygg meira að segja að staðan sé verri í Danmörku varðandi eigið fé fjölskyldna en á Íslandi þó að ég hafi ekki um það nákvæmar tölur. Það væri gaman að skoða það einhvern tíma í hv. félagsmálanefnd vegna þess að þetta er félagslegt atriði.

Um leið og tekin eru upp óverðtryggð lán, sem margir binda miklar vonir við og kannski óraunhæfar, þurfa menn að upplýsa um áhættuna af óverðtryggðum lánum eins og upplýsa hefði þurft um áhættuna af verðtryggðum lánum. Nú er það spurningin hvort menn hugi að uppruna fjárins, sem margir virðast ekkert átta sig á hvaðan komi, þeir virðast halda að peningarnir komi frá guði, frá himnum eða frá bankanum en gleyma því að banki er ekkert annað en millifærsluaðili, banki á ekkert sparifé sjálfur. Þar leggur fólk inn sparifé og svo lánar bankinn það sama sparifé út. Bankinn gerir því ekkert annað en að flytja peninga frá sparifjáreigendunum — sem sumir kalla fjármagnseigendur, og það á víst að vera ljótt — yfir til lántakenda. Sparifjáreigandinn, hinn svokallaði fjármagnseigandi, er nánast alltaf heimili, þannig að þeir sem gæta hagsmuna heimilanna ættu að gæta sérstaklega að sparnaði.

Þegar menn eru með óverðtryggð lán og ef menn ætla ekki að hlunnfara sparifjáreigendur, þ.e. stela af þeim peningum, eins og gert var hér frá 1950 til 1980 — þá var vöxtum kerfisbundið haldið neikvæðum af Seðlabanka Íslands og við það myndaðist mikil eignaaukning hjá skuldurum og sparnaður landsmanna hvarf, hann brann. Það var mjög alvarlegt og sennilega er það ein mesta eignatilfærsla á Íslandi frá lágtekjufólki til hátekjufólks, sem hafði efni á því að taka lán, og til fyrirtækja. Það eru margar sögur af því þegar menn eignuðust fasteignir, það var erfitt að borga fyrst en svo var ekkert eftir og menn fengu fasteignina að miklu leyti gefna þegar lánin voru óverðtryggð.

Ef menn ætla ekki að fara í þessa stöðu aftur þurfa menn að búa sig undir það að ef hér verður verðbólguskot, segjum mjög hóflegt, 10%, þá fari vextir upp í 10% að minnsta kosti. Það er ákveðinn kostnaður fólginn í að flytja peningana á milli. Það er vaxtamunur hjá banka, hann þarf peninga til reksturs og reikna má með að í 10% verðbólgu þurfi bankinn að fá svona 1–2%, það er lágmark, þannig að útlánsvextir ættu þá að vera 11–12%. Tólf prósent vextir á láni sem er nokkuð hátt, segjum 30 milljónir, væru þá 3,6 milljónir og það er óbærilegt fyrir venjulegt fólk að borga 3,6 milljónir bara í vexti á ári. Þessu þurfa menn að átta sig á. Það mundu vera 300 þús. kr. á mánuði bara í vexti ef menn ætluðu ekki að hlunnfara sparifjáreigandann. En svo getur vel verið að það sé markmið hjá mörgum að hlunnfara sparifjáreigandann, það getur vel verið að það sé bara tilgangurinn með dæminu. Manni heyrist oft að það sé eiginlega hið besta mál að fara illa með sparifjáreigendur, en menn gleyma því að sparifjáreigendur eru bara venjulegt fólk og venjuleg heimili sem geta tekið ákvörðun um að hætta að spara og þá þornar upp sú lind sem menn taka lánin úr.

Þegar menn því fara út í óverðtryggð lán þarf að kynna fyrir fólki þá áhættu sem felst í því að það komi verðbólguskot og menn þurfi að borga mjög mikið af láninu. Það er einmitt kostur verðtryggingarinnar að hún dreifir þessu álagi eða áfalli yfir á allan lánstímann sem sumir líta á sem kost en aðrir líta á sem galla. Verðtryggingin hefur því sína kosti og galla og óverðtryggð lán hafa líka kosti og galla. Kosturinn felst í því að eignamyndunin er hraðari og greiðslubyrðin er yfirleitt þekktari. Menn vita betur hvað þeir skulda, skuldin vex ekki, og menn vita betur hvað þeir hafa tekið af skuldbindingum, en greiðslubyrðin verður yfirleitt alltaf mikið þyngri og harðari í óverðtryggðum lánum, sem er kannski ágætt til að auka aga í fjármálum.

Þetta þurfa menn að vita. Ég hef grun um að margir horfi til þess að breyta yfir í óverðtryggt og allt í einu bara þurfi þeir ekki að borga neitt eða mjög lítið; að það sé draumurinn að skuldirnar nánast hverfi. Þannig verður það ekki nema meiningin sé að hlunnfara þann sem lagði til upprunalega féð, hvort sem það er lífeyrissjóður eða eitthvert heimili, að taka af honum peningana sem hann sparaði.