139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ágætt andsvar. Ég tók það fram strax í byrjun að þetta væri framfaraskref vegna þess að þetta eykur kosti fólks. Ég er alltaf hlynntur því að fólk hafi sem flesta kosti og alveg sérstaklega að ríkið sé ekki að stýra fólki inn á ákveðnar brautir sem það kannski vill ekki fara.

Varðandi það hvort þetta séu álögur á heimilin: Ef maður lítur á hina hliðina, sem menn gera mjög ógjarnan, þá er einhver sem hefur lagt til hliðar, hvort sem það er með frjálsum sparnaði eða í gegnum lífeyrissjóðinn sinn — allir Íslendingar eru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð og það gleymist stundum að hver fjölskylda á þar 15 milljónir að meðaltali, meira en hún á yfirleitt í húsinu sínu. Álögur á heimilin felast einmitt í því að 80% af innstæðum í bankakerfinu, svona eftir minni, eru óverðtryggðar. Af hverju eru 80% af innstæðum í bankakerfinu óverðtryggðar? Vegna þess að það er skilyrði að binda innstæðuna í þrjú ár minnst til að geta fengið á hana verðtryggingu, sem gerir það að verkum, af því að fólk treystir ekki bönkunum og treystir því ekki að innstæður verði ekki á einhvern hátt skertar eða skattlagðar (Gripið fram í.) — skattlagðar sérstaklega. Nú er búið að hækka skattana til dæmis og menn eru óvarðir fyrir því þegar þeir leggja fyrir þannig að þess vegna eru 80% af innstæðum óverðtryggðar og það fólk er að tapa í dag, í 5% verðbólgu fá menn kannski 2,5% vexti í hæsta lagi og svo er það skattlagt. Fólk er því að tapa í dag og það er enginn sem kvartar yfir því.

Ég man ekki eftir að hafa heyrt nokkurn þingmann á hv. Alþingi kvarta yfir því að vextir á sparifjárinnstæðum séu neikvæðir, nema helst sjálfan mig.