139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

húsnæðismál.

100. mál
[18:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans greinargerð í þessu. Hann hefur áhyggjur af hinni hliðinni og inneignarhöfum í bankakerfinu, en nú er það náttúrlega ekki þannig að Íbúðalánasjóður sé fjármagnaður með innstæðum í viðskiptabönkunum. Ég velti því fyrir mér, og hv. þingmaður þekkir það betur en ég, því að hann situr í nefndinni, hvort ekki sé í þessu tilfelli fyrst og fremst ástæða til að hafa áhyggjur af ríkissjóði vegna þess að í Íbúðalánasjóði er það væntanlega ríkissjóður sem lánar íbúðakaupendunum fé og tekur síðan lán til þeirrar lánastarfsemi aftur á markaði. Verði misvægi á milli þeirra lána sem hann tekur og þeirra lána sem hann veitir lendir það væntanlega á ríkissjóði og skattgreiðandanum endanlega og þess vegna er einmitt mjög mikilvægt að sem minnst áhætta sé í fjármögnun Íbúðalánasjóðs og hann sé fjármagnaður á sambærilegum kjörum og hann er að lána út á.

Ég vildi kannski biðja þingmanninn um að reifa það stuttlega hvernig þetta sé hugsað, að þessi óverðtryggði lánaflokkur sé fjármagnaður og hvernig nefndin hafi hugsað fyrir því að áhætta af þeirri útlánastarfsemi sé sem allra minnst og sjóðurinn fjármagni sig á sambærilegum kjörum og hann er að lána út á, þ.e. á óverðtyggðum kjörum.