139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Síðast þegar höftin voru framlengd lýstum við sjálfstæðismenn yfir efasemdum um að ríkisstjórninni væri full alvara með yfirlýsingum um að flýta fyrir afnámi haftanna. Við lýstum því líka yfir að við hefðum efasemdir um að ríkisstjórnin hefði burði og bolmagn til að grípa til þeirra aðgerða sem augljóslega eru nauðsynlegar til að skapa grundvöll fyrir afnámi haftanna. Við teljum að í ljós hafi komið að við höfðum rétt fyrir okkur. Það sýnir sig í öllum helstu forsendum fyrir frumvarpinu sem hér eru greidd atkvæði um að ríkisstjórninni er alls ekki full alvara og það vantar mikið upp á að réttar forsendur séu til staðar.

Nú er það svo að í ágætu samstarfi, sem ég vil taka undir með hæstv. ráðherra efnahagsmála um að hefur átt sér stað í þinginu, hefur tekist samkomulag um að ríkisstjórnin gefi út ákveðna yfirlýsingu sem mun tryggja eftirlit og aðhald þingsins með framhaldi málsins. Því er eðlilegt að málið fái nú að ganga til (Forseti hringir.) 3. umr. eftir að hafa farið í nefnd.